Yfirmaður fíkniefnadeildar færður til í starf

22.01.2016 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglustjórinn í Reykjavík, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, hefur ákveðið að færa Aldísi Hilmarsdóttur aðstoðaryfirlögregluþjón og yfirmann fíkniefnalögreglunnar til í starfi. Þetta tilkynnti Sigríður Björk Aldísi í dag og jafnframt starfsmönnum embættisins. Þessi tilflutningur var án nokkurs samáðs við Aldísi, eftir því sem fréttastofa kemst næst. Hún hefur leitað til lögfræðings og verður lögreglustjóri krafinn um rökstuðning fyrir tilflutningnum.

Aldís vildi ekki tjá sig í samtali við fréttastofu. Lögreglustjórinn tilkynnti Aldísi, samkvæmt heimildum fréttastofu, að hún yrði flutt á skrifstofu lögreglustjóra. Tilkynnt hefur verið um nýjan yfirmann fíkniefnadeildar. 

Í síðustu viku greindu bæði Fréttatíminn og Visir.is frá því að staða Aldísar innan yfirstjórnar lögreglunnar væri veik. Fréttastofa sendi á miðvikudag fyrirspurn til Sigríðar Bjarkar um hvort hún bæri fullt traust til yfirmanns fíkniefnadeildar - ekkert svar barst við þeirri fyrirspurn.

Í síðustu viku fór Aldís á fund Ólafar Nordal innanríkisráðherra og kvartaði undan starfsháttum og framkomu Sigríðar Bjarkar.  Þessi nýjasta vending á lögreglustöðinni er enn ein birtingarmynd þess ástands sem þar virðist ríkja.  

Tveir fíkniefnalögreglumenn eru undir rannsókn vegna meintra brota í starfi, hópur lögreglumanna hefur leitað til Landssambands lögreglumanna vegna framgöngu lögreglustjóra og að minnsta kosti sjö aðrir starfsmenn hafa leitað til innanríkisráðuneytisins.