Yfirmaður fíkniefnadeildar á fund ráðherra

15.01.2016 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, fundaði með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í dag, vegna samskipta sinna við Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra.

Aldís staðfesti í samtali við fréttastofu að hún hafi sjálf óskað eftir fundinum, en hún vildi ekki tjá sig um hvað þar fór fram. 

Lengi andað köldu milli Aldísar og Sigríðar

Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að lengi hafi verið stirt milli Aldísar og Sigríðar Bjarkar lögreglustjóra. Fréttatíminn staðhæfir að Sigríður Björk og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri, hafi viljað flytja Aldísi úr fíkniefnadeild lögreglunnar, en Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, og Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn og næsti yfirmaður Aldísar, hafi verið því mótfallnir.

Sigríður Björk hefur ekki gert athugasemdir við þennan fréttaflutning Fréttatímans, eftir því sem fréttastofa RÚV kemst næst, og þá hefur lögreglustjórinn sömuleiðis ekki lýst yfir nokkurs konar stuðningi við Aldísi í þeirri orrahríð sem nú geysar í kringum fíkniefnadeild lögreglunnar. 

Eins og kunnugt er sæta tveir lögreglufulltrúar fíkniefnadeildarinnar rannsókn Ríkissaksóknara annars vegar og Héraðssaksóknara hins vegar, vegna meintra brota í starfi. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, vildi ekki veita fréttastofu viðtal í dag.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV