Yfirlæknir kvartaði undan kannabisræktanda

17.02.2017 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Yfirlæknir heilsugæslunnar á Dalvík sendi lögreglunni á Norðurlandi bréf í mars á síðasta ári og sagðist hafa upplýsingar um að maður, sem í dag var dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir kannabisræktun og önnur brot, ráðlegði fólki eindregið að hætta hefðbundnum og gagnreyndum lyfjameðferðum og nota í staðinn kannabis og kannabisolíu. Maðurinn sagðist hafa leyfi fyrir kannabisræktun sem lögregla fann á bæ í Svarfaðardal og að meðal skjólstæðinga hans væru sjö flogaveik börn.

Þetta kemur fram í dómi héraðsdóms. Maðurinn var ákærður ásamt öðrum fyrir nokkur brot, meðal annars umrædda kannabisræktun. 

Yfirlæknirinn sagði í bréfi sínu til lögreglunnar að starfsfólk heilbrigðisstofnana gæti ekki sætt sig við ráðleggingar mannsins. Fórnarlömb slíkra manna væri gjarnan fólk sem ætti undir högg að sækja vegna skorts á innsæi í eigið ástand eða þroskahömlunar af einhverjum toga.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði leyfi til að rækta kannabis og tilgangurinn hefði ekki verið að framleiða það til neyslu, sölu eða dreifingar heldur ætti að nota það í lækningaskyni. Héraðsdómur sagði að maðurinn hefði ekki getað framvísað leyfinu og að raunar væri vandséð að hann gæti fengið slíkt leyfi.

Í dóminum kemur fram að lögreglan hafi farið í húsleit á bæ í Svarfaðardal í nóvember 2015. Þar hafi hún fundið átta plöntur í kjallara og 49 plöntur í hlöðu skammt frá.  

Maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi en þar af eru þrír mánuðir skilorðsbundnir. Honum var einnig gert að greiða 225 þúsund króna sekt. Hinn maðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða 160 þúsund króna sekt.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV