Williams gæti slegið met Scott Kelly

18.03.2016 - 23:12
epaselect epa05219035 Members of main crew expedition 47/48 to International Space Station (ISS) US astronaut Jeffrey Williams (R), Russian cosmonaut Oleg Skripochka (L) and Russian cosmonaut Alexei Ovchinin (C) attend a sending-off ceremony at the
 Mynd: EPA
Rússneskri geimflaug var skotið á loft frá Baikonur í Kasakstan í um hálf tíu leytið í kvöld að íslenskum tíma. Þrír geimfarar eru um borð og er förinni heitið í Alþjóðlegu geimstöðina.

Geimfararnir eru Rússarnir Oleg Skriprochka og Alexey Ovchinin og Bandaríkjamaðurinn Jeff Williams. 

Gert er ráð fyrir að geimflaugin komist á áfangastað klukkan rúmlega þrjú í nótt. Geimflaugin er skreytt andlitsmynd af Yuri Gagarin, sem varð fyrstur manna til að fara út í geiminn og fara einn hring umhverfis jörðu fyrir nærri 55 árum. 

Um það leyti sem sex mánaða vist Williams lýkur verður hann sá Bandaríkjamaður sem dvalist hefur lengst allra úti í geimi, alls 534 daga, samkvæmt NASA. Fyrra metið setti bandaríski geimfarinn Scott Kelly fyrr á þessu ári. Kelly, sem er 52 ára, var nærri ár í geimnum og þegar hann sneri aftur til jarðar hafði hann varið alls 520 dögum í geimnum á ferli sínum. Ársdvöl Kelly var hluti af tilraun þar sem könnuð voru áhrif langra geimferða á huga manns og líkama, til undirbúnings fyrir hugsanlega leiðangra til Mars í framtíðinni.  

Sá sem hefur samanlagt dvalist lengst allra úti í geimnum er Rússinn Genny Padalka, sem varði alls 879 dögum úti í geimnum á sínum ferli. Hann lauk sinni síðustu geimferð í september í fyrra. 
 
Williams, Skripochka og Ovchinin bætast í hóp þriggja geimfara sem nú þegar dveljast í alþjóðlegu geimstöðinni; þar eru nú bandaríski geimfarinn Tim Kopra, rússneski geimfarinn Yuri Malenchenko og breski geimfarinn Tim Peake. 

Alþjóðlega geimstöðinn hefur verið á sporbaug um jörðu frá árinu 1998. Geimstöðin hefur ekki verið mannlaus frá því fyrsti leiðangurinn var farinn þangað árið 2000. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV