Vöruverð lækkaði eftir að tollar féllu niður

01.03.2016 - 19:33
Daði Már Kristórfersson dósent í hagfræðí við Háskóla Íslands segir að búvörusamningarnir séu gamaldags og bendir á að verð á grænmeti til neytenda hafi lækkað um tugi prósenta eftir að tollar voru felldir niður.

Samningarnir gilda til tíu ára og fela í sér um 130 til 140 milljarða króna ríkisútgjöld til bænda á samningstímanum. Á pallborðsfundi í morgun, sem fjölmörg samtök stóðu að, var fjallað um hvort samningarnir gagnist neytendum. Daði Már, segir að breytingar á landbúnaðarkerfinu séu afar litlar og hægfara. Innlendir mjólkur- og kjötframleiðendur búi ekki við eðlilegt samkeppnisumhverfi og Mjólkursamsalan verði áfram undanþegin samkeppnislögum. 

„Þetta er ekki samningur sem horfir til framtíðar og ekki til hagsmuna neytenda nema að litlu leyti,“ segir Daði.

Hann segir að með því að slaka á tollvernd í nokkrum skrefum mætti lækka vöruverð til neytenda og skapa útflutningstækifæri fyrir landbúnaðinn. Rekstrarskilyrði landbúnaðarins hafi breyst, til dæmis með auknum fjölda ferðamanna, en samningarnir taki ekki tillit til þess.

„Það hefði verið mögulegt að taka upp almennari stuðningsform sem hefði leyft bændum að taka öðruvísi ákvarðanir óháð því í hvaða búgrein þeir stunda sína framleiðslu, skapa bara mestu mögulegu verðmætin, til dæmis með því að stðja meira jarðrækt.“

Daði Már bendir á að frá því innflutningstollar á gúrku, papriku og tómata voru felldir niður árið 2002 hafi verð til neytenda lækkað um 40 til 60 prósent. Innlend framleiðsla á gúrkum dróst upphaflega saman en sjö árum síðar hafði hún náð sömu markaðshlutdeild og fyrir afnám tolla, eða um 93 prósent. Sambærileg þróun átti sér stað í tómataræktun.

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV