Vona að ISON sjáist á Íslandi  • Prenta
  • Senda frétt

Halastjarnan ISON, sem sumir vísindamenn vilja kalla halastjörnu aldarinnar, nálgast nú sólina og fer hársbreidd framhjá henni 28.nóvember. Standi ISON af sér þetta ferðalag gæti hún birst á morgunhimni yfir Íslandi í byrjun desember.

Þetta kemur fram á Stjörnufræðivefnum. Þar segir enn fremur að ómögulegt sé að segja fyrir um hversu áberandi hún verði fyrr en eftir ferðalagið fram hjá sólinni. 

Á Stjörnufræðivefnum segir enn fremur að halastjarnan sjáist nú í sjónsviði Stereo - geimfars Nasa og að engin merki séu um að hún hafi tvístrast. Þar kemur jafn framt fram að halastjarnan sjáist best í aust-suðaustri rétt fyrir sólarupprás. Hún verði lágt á lofti þannig að þeir sem vilja fylgjast með henni þurfa að gæta þess að fjöll og byggingar skyggi ekki á útsýnið. 

Fjallað er um ISON-halastjörnuna á vef BBC í dag og þar kemur fram að ferðalag hennar framhjá sólu sé það sem geri hana einstaka. Stjörnufræðingar gera sér þó vonir um að örlög hennar verði ekki þau sömu og halastjörnunnar Lovejoy sem sprakk í loft upp eftir svipaða ferð.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku