Vísbendingar um jarðhita undir Grænlandsjökli

17.07.2017 - 21:35
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Arnbjörnsson, flugstjó
Gufubólstrar sem stíga upp úr Grænlandsjökli gætu verið merki um jarðhita undir jöklinum. Ef svo er breytir það miklu um hugmyndir og kenningar um jarðskorpuna undir Grænlandi, að mati eldfjallafræðings.

„Menn hafa ekki tekið eftir þessu fyrr en núna. Það er eitthvað að gerast þarna. Við vitum bara ekki hvað það er,“ segir Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, en hann fjallar um gufubólstrana á heimasíðu sinni.

Myndin hér að ofan var tekin í síðustu viku þegar flugstjóri hjá Icelandair flaug yfir Grænland í 10,4 km hæð. Þar sjást háir gufubólstrar rísa upp úr sprungu í jöklinum og stíga til himins nokkru fyrir vestan Kúlusúk.

Héldu að flugvél hefði hrapað
„Fyrst var tekið eftir þessu í lok apríl. Þá flaug flugvél þvert yfir jökulinn. 75 km frá Kúlusúk sáu þeir bólstrana. Fyrst héldu þeir að þetta hefði verið flugvél sem hefði hrapað, því það var mökkur sem kom upp. Þeir tóku mynd út um gluggann á vélinni,“ segir Haraldur. 

Eftir það byrjaði Haraldur að hvetja flugmenn sem fljúga yfir svæðið til að hafa augun opin. „Það vill svo til að einn þeirra náði mynd núna fyrir fimm dögum af sama stað. Og þá er fyrirbærið alveg eins, ekkert breytt. Myndin er tekin úr 10,4 km hæð og samt er þetta greinilegt,“ segir Haraldur.

Risastórt spurningarmerki
„En nú vitum við ekkert meir. Það hefur enginn komist á staðinn,“ segir Haraldur og tekur fram að til standi að gera út leiðangur á staðinn til að rannsaka fyrirbærið. „Þetta er bara eitt risastórt spurningarmerki. Vonandi fást svör við því fljótlega.“

Haraldur segir að tvær skýringar komi einkum til greina. „Eitt er að þetta sé hugsanlega jarðhiti sem er að koma upp á yfirborðið, en við vitum að jökullinn er hátt í 2 km að þykkt á þessu svæði. Ef það væri jarðhiti þá væri hann gífurlega kraftmikill að koma með gufu þarna upp,“ segir hann.

Tröllauknir fossar
Önnur skýring er sú að bólstrarnir tengist bráðnun á jöklinum og séu úði af gríðarstórum fossum sem falla niður um sprungur og ofan í jökulinn.

„Þegar jökullinn bráðnar safnast leysingarvatnið í ár sem renna eftir jöklinum. Sums staðar stingast þær niður í einhvers konar svelgi, beint ofan í jökulinn. Þar geta fossar fallið hátt í 2 kílómetra beint niður í jökulinn. Það er einn möguleiki að þetta sé úðinn frá svona fossi sem fýkur í vindinum. En það væru þá engir smá fossar til að mynda svona úða,“ segir hann.

Ískrap undir jöklinum
Vitað er að jarðhita er að finna á Grænlandi. Hann kemur fram á nokkrum stöðum meðfram ströndum landsins, einkum í grennd við mynni Scoresby-sunds á Austur-Grænlandi.

Þá birti jöklafræðingurinn Jesse Johnson frá Montana vísindagrein í Nature í fyrra þar sem hann setur fram þá kenningu að nær helmingur af norður- og miðhluta Grænlandsjökuls sitji á púða af krapi, sem auðveldi skrið jökulsins. Til að útskýra þetta fyrirbæri telur Johnson útilokað annað en að jarðhita sé að finna undir jöklinum.

 

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV