Vísað úr landi eftir nærri fjögurra ára dvöl

16.02.2016 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Martin Omulu
„Þetta er hræðileg ákvörðun,“ segir Martin Omolu nígerískur hælisleitandi, sem hefur dvalið hér á landi í tæp fjögur ár. Hann fékk þau tíðindi í dag að hann ætti að gefa sig fram við lögregluna á morgun því til standi að vísa honum úr landi. Útlendingastofnun synjaði Omulu um hæli og mál hans fór alla leið fyrir Hæstarétt. Hann verður fluttur til Ítalíu þar sem hann hefur áður fengið hæli.

Martin er samkynhneigður og kveðst hafa flúið heimaland sitt vegna barsmíða og ofsókna. Hér á landi hafi hann hins vegar aðlagast vel. „Þeir hringdu í mig í dag og sögðu mér að það ég ætti að gefa mig fram á lögreglustöðinni á morgun til þess að fá að vita hvenær ég verð sendur aftur til Ítalíu. Í augnablikinu veit ég ekkert hver er staðan er. Ég hef verið hér í nærri fjögur ár og ég veit eignilega ekki hvers vegna ég fékk þetta símtal í dag, en mér líður afar illa og ég veit ekki hvað skal til bragðs taka.“

„Þar á ég enga vini“
Martin hefur sem fyrr segir búið hér á landi í nærri fjögur ár og er í tveimur vinnum. Aðspurður hvað hann telji að bíði sín á Ítalíu, segist hann ekki geta svarað þeirri spurningu. „Þar á ég enga vini og ekkert stuðningsnet. Þetta er hræðileg ákvörðun,“ segir hann.

Martin kveðst hafa yfirgefið Ítalíu á sínum tíma vegna þess að þar hafi mál hans enga umfjöllun fengið. „Ég kom til Íslands vegna kynhneigðar minnar. Hér upplifi ég ekki fordóma og fólk tekur manni eins og maður er. Það hef ég fundið mjög sterkt hér á landi. Ég get rætt kynhneigð mína við hvern sem er. Áður var það þannig að þegar fólk komst að því hver ég er og að ég væri samkynhneigður, þá hélt það sér fjarri mér,“ segir hann.

Hann telur mál sitt ekki hafa snúist um hvort Útlendingastofnun hafi metið frásögn hans trúverðuga, heldur eingöngu um Dyflinar-reglugerðina sem gerir ríkjum kleift að senda hælisleitendur aftur til þess lands sem þeir sóttu fyrst um hæli í.

Veit ekki hvort hann verður handtekinn
„Ég hef eignast svo marga vini hér á landi og mér finnst ég eiga heima hér. Ég veit ekki hvenær ég verð fluttur úr landi, hvort ég verð handtekinn á morgun eða hvað hvað gerist næst, “ segir Martin.

 


Deila fréttValgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
16.02.2016 - 19:46