Virða akstursbannið „ekki strax“

15.07.2017 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson  -  RÚV
Hópferðarbílar Hop on-Hop off, sem reknir eru af Kynnisferðum, munu ekki virða tilmæli Reykjavíkurborgar strax, um akstursstefnu á götum í útjaðri þess svæðis þar sem akstur hópbíla er bannaður í miðborginni. Tveggja hæða hópbílar aka nú gegn akstursstefnu á Njarðargötu. Samkvæmt tilmælum Reykjavíkuborgar vegna akstursbanns í miðbænum eiga hópbílar aðeins að aka niður Njarðargötu.

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að leiðarkerfi Hop on-Hop off sé mjög flókið og það taki tíma að breyta því. „Þetta er alþjóðlegt verkefni. Við þurfum að uppfæra upplýsingar til alþjóðlegra viðskiptavina og erum með fyrirframseldar vörur langt fram í tímann og því mjög flókið fyrir okkur að breyta þessu,“ segir Kristján.

Spurður hvers vegna ekki hafi verið ráðist í undirbúning breytinga þegar ákvörðun um akstursbannið lá fyrir í byrjun mars segir hann: „Það er mjög flókið að breyta leiðarkerfi okkar og við förum ekki í slíka vinnu eftir hugmyndum um breytingar. Við gerum það ekki fyrr en staðfest er hvenær breytingarnar taki gildi. Við höfum verið í sambandi við borgina og látið vita að við munum ekki ná að breyta okkar akstursleið strax, ekki fyrr en eftir um það bil mánuð,“ segir Kristján. „Þetta eru aðeins tilmæli um akstursstefnu en að sjálfsögðu munum við fara eftir þeim um leið og mögulegt er,“ segir hann. 

Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, segir að borgin hafi með samþykki lögreglunnar sett upp skilti um stoppistöðvar og auglýst í stjórnartíðindum að þetta bann taki gildi. Lögreglan sinni eftirliti með því að bannið verði virt. Það séu viðurlög við því ef hópferðabílar keyri inn á bannsvæðið. Hins vegar sé ekki brot á lögum ef hópferðabíll keyri gegn akstursstefnu og því engin viðurlög við því. „Við höfum gefið út tilmæli um akstursstefnu og vonumst til að flestir virði þau,“ segir Þorsteinn.

Fjöldi hópferðabíla í farþegaflutningum frá Kynnisferðum, sem eru hvítir að lit, ók gegn akstursstefnu á Njarðargötu og Eiríksgötu í dag. Kristján segir að hvítu bílar fyrirtækisins eigi ekki að þurfa að fara gegn tilmælum borgarinnar. „Það á ekki að vera nein þörf á því. Þetta er gríðarlega mikil breyting á rekstri hópbifreiða í Reykjavík og mun örugglega taka nokkra daga fyrir alla að átta sig á þessari breytingu. Það eiga allir að vera meðvitaðir um hvert verkefnið er,“ segir hann.

Uppfært kl. 17.24: Bætt var við upplýsingum um akstur hvítu bíla Kynnisferða og rætt við Kristján vegna þeirra.