Vill opinbera rannsókn á Hörpu

20.01.2013 - 19:02
Mynd með færslu
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi vill skoða hvort gera eigi opinber rannsókn byggingu og rekstri ráðstefnu- og tónslistarhússins Hörpu. Stjórnarmenn í félögum sem tengjast tónlistar og ráðstefnuhúsinu fengu rúmar fjörtíu milljónir fyrir sinn snúð á einu og hálfu ári. Tveir fengu yfir tíu milljónir.

Frá maí 2011 til september 2012 fengu stjórnarmenn í átta fyrirtækjum sem tengjast tónlistar og ráðstefnuhúsinu Hörpu, rúmar fjörutíu milljónir samanlagt í laun. Einn þeirra, Pétur J. Eiríksson, fékk tæpar ellefu milljónir króna fyrir stjórnarformennsku í fimm félögum og stjórnarsetu í einu til. Þórunn Sigurðardóttir fékk rúmar þrettán milljónir. Þetta kemur fram í svari Jóns Gnarr borgarstjóra við fyrirspurn Kjartans Magnússaonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Svarið var lagt fram í borgarstjórn á þriðjudag.

Kjartan segir það hins vegar ekki fullnægjandi. „Ég sneri mér til borgarstjóra vegna þess að mér hafði gengið mjög illa að fá upplýsingar frá Austurhöfn sem er fyrirtæki í opinberri eigu. Síðan lagði ég fram fyrirspurn á borgarstjórnarfundi og fæ í rauninni ekki allar þær upplýsingar sem ég spyr um. Eitt af því sem ég reyni að leiða í ljós er hver heildarkostnaðurinn er við Hörpu, við allt verkefnið. Þær upplýsingar hef ég ekki fengið ennþá. Ég tel að almenningur eigi skýlausan rétt á að fá þær upplýsingar.“

Talan sem sett var fram í svari borgarstjóra var sautján og hálfur milljarður. En tíu milljarðar voru afskrifaðir hjá Landsbankanum vegna byggingarinnar, og svo vantar kostnaðarliði, svo talan ætti að vera nær 30 milljörðum króna en ekki innan við 20 segir Kjartan. „Ég held að það þurfi að fara yfir alla þætti málsins. Eftir því sem maður skoðar þessi mál betur vakna alltaf nýjar og nýjar spurningar. Það þarf að rannsaka þetta mál miklu betur. Satt best að segja kemur upp í hugan hvort það sé ekki rétt að þetta mál sé bara skoðað með opinberri rannsókn.“