Vill minnka bankana enn meira með arðgreiðslum

27.02.2016 - 20:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að nærri 40 milljarða króna arðgreiðslur frá ríkisbönkunum í ár séu góðar fréttir fyrir ríkissjóð, en vill minnka bankakerfið enn meira með því að taka meiri arð út úr bönkunum.

Hátt í 40 milljarðar í arð

Samanlagðar arðgreiðslur Landsbankans og Íslandsbanka til ríkisins af hagnaði ársins 2015 nema 38,6 milljörðum króna, sem er margfalt meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Fjármálaráðherra segir að þetta séu góðar fréttir fyrir ríkissjóð, en vill ganga lengra í að minnka bankakerfið.

„Ég sé fyrir mér að á næstunni muni ríkið beita sér fyrir því, í þeim bönkum sem að það fer með meirihlutann í, að það verði tekinn meiri arður heldur en sem að snertir hlutfall hagnaðar vegna síðasta rekstrarárs,“ segir Bjarni.

Spurður hvort ekki sé ástæða til þess, í ljósi sögunnar, að fara mjög varlega í að skerða eigið fé bankanna, segir Bjarni að bankarnir séu ekki viðkvæmir fyrir því núna.  Íslensku bankarnir séu líklega best settir af bönkum í Evrópu með eigið fé, það er að segja hreina eign þegar skuldir hafa verið dregnar frá. Með því að taka út meiri arð sé hægt að draga úr þörf þeirra til að ávaxta jafn mikið fé og þeir eiga nú. „Án þess að setja með nokkrum hætti eiginfjárstöðu þeirra í einhverja hættu eða uppnám,“ segir Bjarni.

Enginn að flýta sér í að ráðstafa bönkunum

Áætlað er að ríkið taki yfir Íslandsbanka á næstu vikum og eigi þá tvo af stóru bönkunum þremur. Heimild er á fjárlögum þessa árs til að selja Íslandsbanka eins og hann leggur sig og 28,2% í Landsbankanum. Skiptar skoðanir eru meðal þingmanna ríkisstjórnarflokkanna um hvort nýta á heimild til að selja Landsbankann, samkvæmt nýlegri könnun Kjarnans.

En hver eru næstu skref í því hvernig ríkið ætlar að halda utan um hlutina og hvað á að gera við þá í framtíðinni? „Ég held að menn eigi bara að fara sér hægt. Það er enginn að flýta sér neitt í því,“ segir Bjarni. Búið sé að skrifa í lög að Bankasýsla ríkisins haldi utan um eignirnar. Síðan þurfi að ljúka breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki, sem sé í vinnslu í ráðuneytinu.

Næsta skref sé svo að draga úr stærð bankanna með því að taka meiri eignir út úr þeim. Í framhaldi af því þurfi að leggja drög að langtímaáætlun um hvernig eignarhaldið smám saman breytist. „Ég sé ekki fyrir mér að ríkið haldi á öllum þessum eignarhlutum til langs tíma, en við ætlum ekkert að flýta okkur í því að gera þær breytingar. Það þarf að gerast þannig að gætt sé að öllum varúðarsjónarmiðum,“ segir Bjarni.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV