Vill ekki deila skoðunum sínum um söfnunina

27.01.2016 - 23:01
Mynd með færslu
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis.  Mynd: RÚV
Formaður fjárlaganefndar Alþingis vill ekki deila skoðun sinni á undirskriftarsöfnun sem nú stendur yfir, þar sem skorað er á stjórnvöld að endurreisa heilbrigðiskerfið með auknum fjárframlögum.

Hún segir fyrri ríkistjórn hafa holað kerfið að innan en núverandi ríkisstjórn hafi haft málaflokkinn í forgangi og bendir á að Ísland sé ofar en Danmörk og Svíðþjóð á lista yfir bestu heilbrigðiskerfi Evrópu.

Hátt í 52 þúsund manns hafa nú sett nafn sitt á lista Kára Stefánssonar þar sem skorað er á stjórnvöld að endurreisa heilbrigðisskerfið og þess krafist að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins. Stjórnvöld hafi á siðustu áratugum vannært kerfið. Málið var rætt á alþingi í dag.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tók til máls og sagði að fyrir síðustu kosningar hefði sinn flokkur lagt fram ríkisfjármálaáætlun sem miðaðist að þvi að tekjustofnum yrði haldið óbreyttum og að það yrði tryggt að arðurinn af auðlindunum myndi renna til að byggja upp innviði samfélagsins.

„Og ég held að þessi undirskriftasöfnun sem snýst fyrst og fremst um þetta um það hvert umfang samneyslunnar eigi að vera hvernig nákvæmlega stjórnmálamenn þurfi að svara því eigi að fjármagna hana sýnir það að almenningur vill setja þessi mál á dagskrá og ég held að háttviritir þingmenn megi ekki daufheyrast við því heldur taka alvarlega þann ríka vilja sem þarna birtist i´að efla innviði samfélagsins okkar og þá þarf að horfa til tekjuöflunarinnar og það þarf nýja hugsun í þeim málum", sagði Katrín.

„Þessi ríkisstjórn hefur haft heilbrigðismálin í algjörum forgangi síðan hún tók við og það hefur sýnt sig í fjárlagagerð hvers árs og svo voru að berast þau ánægjulegu tíðindi að Ísland er í 8. sæti af ríkjum Evrópusambandsins með hvað besta heilbrigðisþjónustu. Það voru gleðileg tíðindi. Við erum ofar en bæði Danmörk og Svíþjóð sem dæmi", sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. 

„Ég ætla ekki að stíga inní þennan hring. Ég er búin að taka ákvörðun um það alveg og Kári ber ábyrgð á þessari söfnun og hann verður að svara fyrir hana, en ég hef hreina samvisku varðandi heilbrigðismálin og þá vinnu sem þessi ríkisstjórn hefur verið að inna af hendi síðan hún tók við því svo sannarlega var heibrigðiskerfið holað að innan í tíð fyrri ríkisstjórnar", sagði Vigdís.

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV