Vill banna happdrætti á netinu

18.10.2012 - 13:01
Mynd með færslu
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hyggst leggja fram frumvarp á þessu þingi um að bannað verði að spila happdrætti á netinu. Samhliða því verður komið á fót happdrættisstofu, sem hafa á eftirlit með starfsemi happdrættanna.

Þetta kom fram á opnum nefndarfundi í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem innanríkisráðherra fór yfir þau mál sem hann hyggst leggja fyrir þingið. Eitt frumvarpið er ný lög um happdrætti.

„Þar er verið að leggja til að sett verði á laggirnar happdrættisstofa sem fylgist með þessum stóriðnaði sem happdrætti, auk þess sem í bígerð eru lög um bann við spilun á netinu,“ segir Ögmundur. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni hnaut um þessa stofnun. „Er það ný stofnun? Og eru menn þá að setja fjármagn og forgangsraða í ráðuneytinu sem er algjörlega vanbúið varðandi fjárframlög til lögreglunnar og ætla menn þá að forgangsraða til happdrættisstofu umfram lögreglunnar?“

Ögmundur svaraði því til að happdrættisstofan leysti af hólmi nefndir sem væru starfandi innan ráðuneytisins, og gert væri ráð fyrir því að stofnunin væri fjármögnuð með framlagi frá fyrirtækjunum sem stundi þessa starfsemi. Þetta sé byggt á lögum í Noregi. „Við erum að reyna að gera þetta í góð samstarfi við happdrættis- og spilafélögin. þetta er ekki þvert á þeirra vilja, alls ekki.“

En fleiri þingmenn en Þorgerður Katrín lýstu yfir áhyggjum af löggæslunni. Ögmundur hyggst aftur leggja fram tillögu um fækkun lögregluumdæma úr 24 niður í átta, og að það taki gildi árið 2015. Gagnrýnt var meðal annars að ekkert lægi fyrir um hverju það skilaði, hvorki í þjónustu né kostnaði.