Vill algert bann

27.11.2011 - 18:07
Mynd með færslu
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu á morgun sem meðal annars felur í sér að öllum erlendum ríkisborgum sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu verður bannað að kaupa land á Íslandi, hvort sem þeir búa innan Evrópska efnahagssvæðisins eða utan.

Hún telur sig hafa stuðning félaga sinna í þingflokki vinstri grænna.

„Eins og nýjustu atburðir hafa sýnt okkur er mikil þörf á því að fara yfir lagaumhverfið allt sem varðar uppkaup erlendra aðila á landi. Það er rætt um þetta eins og við séum að ræða um nokkur skópör en við erum að tala um landið okkar og auðlindir þess,“ segir Guðfríður Lilja. „Það þarf að fara yfir hluti eins og landstærð, landnýtingu og fjölda landareigna sem hver aðili má eiga. Þá er ég líka að tala um íslenska aðila.“

„Við erum að tala um almannarétt gegn valdi auðjöfra, einstakra auðjöfra og auðhringja mismunandi landa. Það þarf að skoðast í því samhengi líka. Það má ekki skoða þetta mál sem skammtímahagsmuni heldur verður að hugsa þetta sem áratugi og helst í öldum eða kynslóðum,“ segir Guðfríður Lilja sem segist ganga út frá því að þetta sé í takt við það hvernig hjörtu Vinstri-grænna slá. Hún er ekki jafn viss um stuðning Samfylkingarfólks sem þó hafi sagst styðja endurskoðun lagaumhverfisins. „Væntanlega í þá átt að leyfa öllum að koma hingað sem vilja, ég er að tala um að fara í öfuga átt við það.“