Vill að ríkið áfrýi til yfirdeildar MDE

19.05.2017 - 12:50
epa04590334 A general view of the entrance during the hearing in the case Perincek vs Switzerland, at the European Court of Human Rights (ECHR) in Strasbourg, France, 28 January 2015. The European Court of Human Rights holds a Grand Chamber Hearing in the
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.  Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn, Boštjan Zupančič, telur úrskurð dómstólsins í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar byggðan á misskilningi. Niðurstaðan var sú að íslenska ríkið hefði brotið gegn ákvæði mannréttindasáttmálans um að hvorki skuli saksækja né refsa mönnum tvívegis. Það telur Zupančič ekki eiga við og að íslenska ríkið ætti að áfrýja úrskurðinum.

Í úrskurði Mannréttindadómstólsins í Strassborg í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar var niðurstaðan sú að íslenska ríkið hafi brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu um réttinn til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis. Boštjan Zupančič fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn segir þetta ákvæði ekki eiga við í þessu máli. Hann hefur áður dæmt í málum þar sem íslenska ríkið var dæmt fyrir brot á Mannréttindasáttmálanum og þekkir vel til íslenskra laga.

Zupančič telur dóminn í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar byggðan á misskilningi, meðal annars vegna túlkunar á eldri dómi sem hann telur að standist ekki. Það sé vissulega verið að dæma á grundvelli sömu gagna en það sé í raun verið að dæma í tveimur óskyldum málum líkt og alls staðar sé og eigi að vera hægt. Í skattamálinu sé aðeins verið að dæma um skattalega meðferð og þá álag, án tillits til hvort um hegningarlagabrot sé að ræða, segir Zupančič. Í refsimálinu sé tekið fyrir meint hegningarlagabrot. Það að nota sömu gögn í eðlis-óskyldum málum sé alls staðar gert og slík málsferð falli að hans mati ekki undir þá grein Mannréttindasáttmálans sem banni að menn séu saksóttir eða þeim refsað tvívegis. 

Zupančič hvetur íslenska ríkið til að áfrýja dómnum til Yfirdeildar dómsstólsins, líkt og hægt er að gera. Þannig fengist líka dómafordæmi sem gagnaðist Mannréttindadómstólnum almennt.