Vilja kynjaskipta áfengismeðferð

29.08.2013 - 11:44
Mynd með færslu
Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, vill að boðið verði upp á kynjaskipta áfengismeðferð. Þá vilja þær að markvisst verði unnið með þolendur og gerendur ofbeldis sem leita sér meðferðar, en um 80% kvenna í meðferð hafa orðið fyrir ofbeldi.

Rótin sendi Landlæknisembættinu erindi fyrr á þessu ári þar sem þess var krafist að aðstæður í heilbrigðiskerfinu væru þannig að konur geti leitað sér meðferðar án þess að eiga á hættu að lenda í klóm ofbeldismanna.

Kristín I.Pálsdóttir ráðsmaður í Rótinni segir þetta vera nátengt: „Við höfum áhuga á því að koma á fót meðferðarstofnun fyrir konur sem vinnur út frá annarri hugmyndafræði heldur en er gert á Vogi. Eins og kom fram á forsíðu Fréttablaðsins 20. ágúst, þar segir yfirlæknir á Vogi að þeir séu ekkert að meðhöndla ofbeldi. Okkar hugmyndafræði er sú að þetta sé nátengt og skuli meðhöndla samhliða.“

Hjá Landlæknisembættinu fengust þau svör að til standi að fara yfir málin í samvinnu við Þórarin Tyrfingsson, yfirlækni á Vogi. Rótin hefur einnig óskað eftir svörum velferðarráðuneytisins hvort tillögum til að fyrirbyggja ofbeldi gegn konum eftir dvöl á meðferðarstofnun væri fylgt. Samkvæmt tillögunum skal skimað á meðferðarstöðum eftir þeim sem hafa beitt maka sinn ofbeldi, og eftir þeim sem hafa verið beittir ofbeldi af maka. Meðferð tæki svo mið af þessu. Velferðarráðuneytið hefur tekið erindið til meðferðar.