Vilja komast með ferðamenn að gosstöðvunum

18.11.2014 - 18:18
Mynd með færslu
Samtök ferðaþjónustunnar boðuðu til fundar á Akureyri í dag þar sem fjallað var um samráð við Almannavarnir og aðra eftirlitsaðila. Sérstaklega var rætt hvort hægt verði að fara með ferðafólk að gosstöðvum í Holuhrauni. Mikil eftirspurn er eftir ferðum þangað.

Á fundinum í dag ræddu forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar um mögulega útsýnisstaði sem fundnir hafa verið innan svæðisins. Þeir eru þó margir innan mesta hættusvæðisins, hvort sem litið er til gasmengunar eða öskufalls í kjölfar mögulegs sprengigoss.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að þónokkurs þrýstings gæti frá ferðaþjónustufólki, sem vill komast inn á svæðið.

„Já, menn eru áhugasamir um að komast inn á svæðið og geta sýnt ferðamönnum gosið. Áhuginn snýst líka um það að geta valið staðinn þar sem  ferðamaðurinn fer. Við vitum það að ferðamenn hlýða okkur ekkert endilega, þeir bara fara þangað sem þeir vilja fara og við viljum vera þá svolítið á undan straumnum. Velja útsýnisstaðinn og velja vel svo það sé hægt að gera þetta án þess að leggja menn í hættu. Auðvitað vilja menn vinna þetta með Almannavörnum.“

Hún segir að samstarf lögreglu og ferðaþjónustunnar hafi gengið ágætlega, þrátt fyrir nokkrar uppákomur rétt eftir að gosið hófst.

„Það voru árekstrar til að byrja með, menn kannski stukku af stað í þetta, eðlilega, og höfðu ekki mikið samráð við ferðaþjónustuna. Hún gleymdist svolítið í upphafi, en nú er kominn af stað samráðshópur sem er að vinna þetta vel og kemur sjónarmiðum ferðaþjónustunnar á framfæri og þetta gengur vel núna.“

Samtök ferðaþjónustunnar hafa kallað eftir því að svæðið verði opnað og verið í samráði við Almannavarnir og aðra eftirlitsaðila um útfærslu á því.

„Það felst í því að skoða með hvaða hætti hægt er að opna aðgengi að Holuhrauni, þannig að ferðamenn og aðilar geti séð þennan atburð gerast sem er sögulegur á heimsvísu í sjálfu sér", segir Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Hluti þessarar vinnu hefur snúist um að finna svokallaða sjónarhóla, þar sem hægt verður að fylgjast með gosinu. Þeir eru þó inni á því svæði sem metið er hvað hættulegast, meðal annars vegna gasmengunar.

„Eins og staðan er í dag þá er þessi staður bara lokaður og við berum virðingu fyrir því faglega mati. Við verðum engu að síður að líta til framtíðar og það þarf að endurmeta ástandið alltaf með jöfnu millibili. Skoða með hvaða hætti hægt er að sjá, hvernig mögulegt er að komast þarna inn", segir Gunnar.