Vilja Glanna glæp í Eurovision

06.01.2017 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Ríflega 10.000 manns hafa skrifað undir áskorun til RÚV um að Glanni glæpur, sem leikinn er af Stefáni Karli Stefánssyni, keppi fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision. Breskur maður, Andrew McCarton, er upphafsmaður undirskriftasöfnunarinnar.

Í bréfi sínu til RÚV bendir McCarton á að Glanni glæpur, sem er persóna úr Latabæjarþáttunum, hafi öðlast alþjóðlega frægð þegar Lagið We Are Number One varð geysivinsælt á internetinu. Þá segist McCarton vonast til þess að fjöldi undirskrifta undir áskorunina muni sýna hversu mikils stuðnings, víðs vegar um heim, Stefán Karl njóti nú þegar hann glími við krabbamein. „Auðvitað vonumst við til þess að sjá hann í keppninni 2017 en bati hans verður að vera í forgangi. Ég vona að ef hann geti ekki verið í keppninni 2017, muni hann og RÚV ígrunda þátttöku hans í keppninni ári síðar,“ skrifar McCarton.

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV