Vildi ekki ræða ástandið í Úkraínu

19.03.2014 - 14:18
Mynd með færslu
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vildi ekki ræða ástandið í Úkraínu á ráðstefnu um norðurslóðir í Noregi. Hann sagði óviðeigandi að fordæma framferði Rússa á slíkum vettvangi.

Forsetinn tekur nú þátt í ráðstefnu um málefni norðurslóða í háskólanum í Norðurlandi í Noregi. 

Atburðir undanfarinna daga á Krímskaga komu til umræðu á ráðstefnunni. Ingvild Næss Stub, aðstoðarráðherra í norska utanríkisráðuneytinu, gagnrýndi framferði Rússa harðlega í ræðustól. 

Í frétt Nordlys segir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi þá sagt það óviðeigandi að nota ráðstefnu sem þessa til að fordæma eitt af stóru ríkjunum á norðurslóðum.

Það þurfi ekki að taka lengur en klukkustund að eyðileggja samstarfið á norðurslóðum, sagði Ólafur í ræðustól. Hann benti á að við aðstæður sem þessar væri mikið í húfi. Samvinna landanna á norðurslóðum undanfarin tuttugu ár væri eina tegund samstarfs milli landa í norðri frá lokum kalda stríðsins. Þess vegna yrði að gæta varkárni hvernig ágreiningur einstakra landa væri dreginn inn í þessa umræðu.

Það þjónaði engum tilgangi að kljúfa samvinnu á norðurslóðum í fylkingar. Ólafur Ragnar sagðist tilbúinn að ræða ástandið á Krímskaga á öðrum vettvangi, en ekki þarna.