„Vil ekkert vegan-kjaftæði“

09.02.2016 - 11:05
Í dag er þriðjudagur fyrir lönguföstu, sprengidagur. Landsmenn halda átveislur miklar í dag og sjálfsagt ætla margir að gæða sér á vænum kjötbita, með baunasúpu og tilheyrandi meðlæti strax í hádeginu.

Ottó Markússon kjötiðnaðarmaður í Nóatúni í Austurveri segir að tvær tegundir séu nú til af saltkjöti, þetta hefðbundna og svo minna saltað, sem sumir kjósa heilsunnar vegna. Sjálfum þykir honum þetta hefðbundna betra, hann vill hafa almennilegt bragð af matnum. 

„Það er passlegt að borða saltkjöt einu sinni í mánuði og kjötfars vikulega,“ segir Ottó, sem vill ekkert „vegan-kjaftæði“. 

Hann bendir á að söltun sé gömul og góð geymsluaðferð og að sennilega hefðu Íslendingar ekki komist af ef ekki væri fyrir saltkjöt og mysu. 

 

Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV