Vigfús Bjarni býður sig fram til forseta

06.03.2016 - 17:15
Mynd með færslu
Vigfús Bjarni ásamt Valdísi Ösp eiginkonu sinni.  Mynd: RÚV
Vig­fús Bjarni Al­berts­son, sjúkra­húsprest­ur á Land­spít­al­an­um, tilkynnti í dag að hann ætli í framboð til forseta. Vigfús tilkynnti ákvörðun sína á blaðamannafundi á Hótel Borg í dag. Vigfús tók við 500 undirskriftum við þetta tilefni í dag.

Í ræðu sem Vigfús hélt sagði hann meðal annars; „Ég veit að ég hef hugrekki til að ganga inn í þessar aðstæður og tala upphátt.“

Vigfús er sem fyrr segir sjúkrahúsprestur á Landspítalanum og hefur starfað mikið með börnum þar. „Vitrasta fólk sem ég hef umgengist eru börnin. Okkur finnst að embættið eigi að hafa nærveru og rödd sem tekur mið af börnum þessa lands, kynslóðunum sem ætla að taka við samfélaginu, þeim kynslóðum sem munu varðveita þetta samfélag og landið í framtíðinni. Það er merkileg staðreynd og góð, börnin kalla alltaf það besta fram í okkur.“

Vigfús sagði forsetaembættið geta minnt á það mikilvægasta í íslensku samfélagi. „...að við varðveitum hvert annað, það gerist með því að embættið heimsæki hið daglega líf. Hið daglega líf á sér stað sem dæmi inni á heilbrigðisstofnunum þessa lands. Ég þekki það eftir ellefu ára starf inni á Þjóðarsjúkrahúsinu að þar hefur átt sér stað breyting.“ 

Í lok ræðu sinnar fjallaði Vigfús um að forsetinn ætti að lyfta því sem vel er gert í samfélaginu. „Þakklæti er rannsökuð tilfinning, hún breytir okkur. Það að iðka þetta þakklæti er til dæmis að beina sjónum okkar að og tjá þakklæti til kynslóðanna sem hafa lokið vinnuævinni. Embættið þarf að minna á þetta þakklæti því það liggur svo mikill styrkur og viska í kynslóðunum. Kynslóðirnar sem hafa verið á undan okkur hafa lifað með og í þessu landi. Líf okkar er þeim að þakka, dugnaði og grunngildum þeirra. “

Vigfús sagði embætti forseta eiga að minna á það sem væri sameiginlegt í þjóðarsálinni; þrautseigja og sköpunargáfa. „Án þess þó að boða að við séum betri en annað fólk. Fyrirtæki, hið vinnandi fólk, og menntastofnanir eru stöðugt að búa til verðmæti. Það er eðlilegt að embættið aðstoði við slíka uppbyggingu. Bæði hér heima og erlendis í samráði við fyrrnefnda aðila.“ 

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV