Vigdís lagði til að Sigrún yrði ráðherra

30.12.2014 - 18:20
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkur, lagði það til við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að Sigrún Magnúsdóttir yrði næsti ráðherra flokksins. Þetta upplýsti Sigmundur Davíð eftir þingflokksfund flokksins síðdegis í dag.

Vigdís hefur gert tilkall til ráðherrastóls en hún er 2. þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður. Sigrún er aftur á móti 7. þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður. 

Sigmundur Davíð sagði við fréttastofu eftir þingflokksfundinn í dag að hann hefði rætt einslega við alla þingmenn Framsóknarflokksins og að í þeim samtölum hefði komið í ljós að Sigrún nyti almenns stuðnings meðal þingmanna.  

Hann sagði að Vigdís Hauksdóttir hefði sjálf lagt á það ríka áherslu í samtölum þeirra að næsti ráðherra flokksins kæmi úr Reykjavík. Sigmundur upplýsti að Vigdís hefði sjálf lagt það til að Sigrún yrði sá ráðherra.

Forsætisráðherra sagði að umhverfis- og auðlindaráðuneytið yrði sérráðuneyti eins og verið hefði, en Sigurður Ingi Jóhannsson hefur gegnt þessu embætti samhliða starfi sínu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.