Víðines: Heilbrigðiseftirlit gagnrýnir aðbúnað

27.03.2017 - 21:59
Mynd með færslu
Frá Víðinesi.  Mynd: Skjáskot  -  Mynd
Matur er borinn fram hálfkaldur, þrifum er ábótavant og sápu eða þurrkur vantar við handlaugar. Þetta eru meðal athugasemda sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gert við aðbúnað í Víðinesi, þar sem um sjötíu hælisleitendur eru vistaðir. Þá hafa margir kvartað undan stopulum samgöngum frá staðnum.

Útlendingastofnun hefur starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fyrir rekstri á gistiskýli í Víðinesi fyrir allt að 100 manns, móttökueldhús fyrir heitan mat í hádegi og að kvöldi og aðstöðu til að framreiða morgunmat. Það nýtist fyrir hælisleitendur og búa um sjötíu karlmenn þar núna.

Heilbrigðiseftirlitið fór í eftirlitsferð 17. febrúar en þá hafði meðal annars verið kvartað undan óþrifnaði í eldhúsi. Þrifum var þó ábótavant, til dæmis í sturtum, en þó hafði þrifdögum fjölgað. Heilbrigðiseftirlitið gerði athugasemdir við að þrifaáætlun væri ekki staðfærð og virk. Maturinn var ekki settur á hitaborð við komu heldur borinn fram hálfkaldur tveimur tímum síðar. Þá vantaði ýmist einnota handþurrkur, fljótandi sápu eða gerileyði við handlaugar alls staðar nema í eldhúsinu. Að auki voru merki um leka í gangi við þvottahús. Allt þetta brýtur í bága ýmist við ákvæði starfsleyfisins eða lög og reglugerðir um starfsemina. Bréf var í kjölfarið sent til Útlendingastofnunar með kröfu um úrbætur. 

Aftur athugasemdir

17. mars, þ.e. fyrir tíu dögum, kom Heilbrigðiseftirlitið aftur. Þá voru borð í matsal óhrein þegar kom að hádegisverði og óþrifalegt í þvottahúsi en þrif þó almennt betri. Sömu athugasemdir voru gerðar um þrifaáætlun, búnað við handlaugar og rakaskemmdir. Frágangur matarins og móttaka var enn ekki í lagi - nú voru tiltæk hitaborð ekki tilbúin þegar maturinn kom. Annað bréf með kröfu um úrbætur var sent Útlendingastofnun á þriðjudaginn var.

Hjá Útlendingastofnun fengust þau svör að stofnunin hefði þegar brugðist við flestum þeim kröfum sem beinast beint að stofnuninni, til dæmis áætlun um þrif og eftirlit með hitastigi á kæliskápum. Matur og þrif séu aðkeypt og hefur ábendingunum um þá þætti verið komið til skila til þeirra sem sjá um það, með kröfum um úrbætur. Viðgerðir á rakaskemmdum séu svo á ábyrgð eiganda hússins, sem er Reykjavíkurborg. 

Hælisleitendurnir hafa einnig kvartað undan samgönguleysi frá Víðinesi. Þeir hafa strætókort og svo er boðin ferð frá Víðinesi hingað á strætisvagnastöðina í Esjumelum á morgnana, og svo aftur til baka síðdegis. Ef menn missa einhverra hluta vegna af ferðinni til baka, þurfa þeir að ganga tæplega klukkutíma leið, meðal annars fram hjá skotæfingasvæði og sorphaugum.

Sú var raunin með hælisleitendur, sem urðu á vegi fréttastofu. Þeir vildu ekki koma í viðtal, en sögðust þurfa að ganga þessa leið á hverjum degi.

Þetta samgönguleysi verður líka til þess að þegar þeir eiga erindi í bæinn, til dæmis út af framgangi mála sinna hjá Útlendingstofnun, missa þeir af minnst einni máltíð og fá ekkert í staðinn. Í þokkabót fá þeir ekki fæðispeninga af því að þeir fá mat í Víðinesi. Þeir fá 2.700 krónur á viku, á meðan þeir sem fá ekki mat skammtaðan fá 8.000 krónur.

Hjá Útlendingastofnun fengust þau svör að ef menn missi af máltíð séu matur tiltækur, til dæmis ávextir. Húsnæðið í Víðnesi bjóði hins vegar ekki upp á að hælisleitendurnir eldi sjálfir. Ekki standi til að fjölga ferðum frá Víðinesi að strætisvagnastöðinni.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV