Viðbragðsæfing í Hlíðarfjalli á morgun

12.02.2016 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Á morgun, laugardaginn 13. febrúar, verður haldin æfing í Hlíðarfjalli, þar sem reynt verður að líkja eftir snjóflóði af manna völdum og viðbrögð við því æfð. Akureyrarbær vill vekja athygli á þessu, en æfingin mun ekki trufla starfsemi á skíðasvæðinu eða gesti þess.

Bílafloti lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og annarra mun þó líklega vekja athygli og vill Akureyrabær því koma því á framfæri að aðeins verður um æfingu að ræða. 

Hún verður haldin til að tryggja rétt viðbrögð við snjóflóðum sem hrundið er af stað af manna völdum og verður reynt að líkja eftir slíkum aðstæðum við jaðar skíðasvæðisins. 

Mikið hefur snjóað á Akureyri og Hlíðarfjalli síðustu vikur. Á Facebook síðu skíðasvæðisins hefur að undanförnu verið varað við snjóflóðahættu utan troðinna brauta, en mjög vinsælt er að fara út fyrir þær. Þar kemur fram að færið sé aðeins fyrir vant skíðafólk, með viðeigandi búnað og þekkingu.

Núna kl. 08:00 er logn, -3 gráður og heiðskýrt. Við getum auðveldlega sagt að aðstæður eru hvað bestar í heiminum hér ú...

Posted by Hlíðarfjall Akureyri on Thursday, February 11, 2016
Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV