Víða él nema vestanlands

13.02.2016 - 08:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í dag, laugardag verður austankaldi og dálítil él á víð og dreif, en úrkomulítið vestanlands. Lægir víða á morgun og léttir til, en vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa suðvestanlands um kvöldið og því upplagt að njóta vetrarblíðunnar um helgina, en á mánudag kemur alldjúp lægð inn á Grænlandshaf. Hvessir þá af suðaustri með slyddu, en síðan rigningu sunnan og vestanlands og hlýnar í bili.

Veðurspáin

 Austlæg átt, víða 8-13 metrar á sekúndu, en hvassari norðvestan til og allra syðst. Dálítil él víða um land, en úrkomulítið vestanlands. Lægir og léttir smám saman til á morgun, en vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa suðvestan til annað kvöld. Frost 1 til 15 stig, kaldast á Norðvesturlandi, en frostlaust með suðurströndinni.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV