„Við viljum ekki þetta bónusa umhverfi“

17.02.2016 - 08:18
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að milljarða króna kaupaukagreiðslur til lykilstarfsmanna eignarumsýslufélagsins ALMC, sem áður var Straumur Burðarás fjárfestingabanki, komi mögulega til út af stöðugleikaframlagi í ríkissjóð.

„Þetta er mjög sérstakt mál. Þetta kemur til af því mögulega, þetta þarf að skoðast. ALMC er stofnað á grunni gjaldþrota fyrirtækis og við það mögulega skapast þetta við það að það er að koma stöðugleikaframlag í ríkissjóð og starfsmenn séu á þeim grunni og stjórnendur að borga sér bónusa. Það þarf að skoða það mál. Við höfum sýnt það sem þjóð og löggjafinn, að við viljum ekki þetta bónusa umhverfi.“

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir málið siðlaust. Háar bónusgreiðslur eigi ekki rétt á sér.  Þær hefðu ekki verið greiddar út hefði verið settur stöðugleikaskattur. „Þetta með að þeir hefðu greitt í kringum 50 milljarða í stöðugleikaskatt en greiða í þess stað fimm milljarða. Eins og Willum kom inn á þá sýnir það að menn eru að gera þetta á þeirri forsendu, í rauninni, af því þeir eru að verðlauna sig fyrir að ná svona góðum díl við ríkið. Mér finnst það ekki ásættanlegt í nokkurn stað. 

Willum segir að ákveða verði hvernig lagaumhverfið eigi að vera hér á landi. „Við erum í alþjóðlegu umhverfi en við þurfum að tryggja í okkar löggjöf hvernig við viljum hafa þetta hér.“

Bjarkey segir að samkvæmt lögum megi greiða 25 prósent af launum í bónusa. Eignaumsýslufélagið ALMC falli hinsvegar ekki undir þetta ákvæði. „Ég get aldrei fallist á að milljarðar króna séu eðlilegar sem bónusgreiðslur. Þessir menn eru með 46 milljónir í stjórnarsetulaun á ári. Þetta bætist ofan á það. [...] Mér finnst svona svaðalegar bónusgreiðslur ekki eiga rétt á sér. Þetta eru nota bene bara stjórnarsetulaun. Menn eru væntanlega í annarri vinnu.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi