„Við göngum ekki inn í brennandi hús“

07.03.2016 - 10:34
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segist hafa endurskoðað afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Þar sé allt í rugli. „Við göngum ekki inn í brennandi hús núna. Slökkvið fyrst eldana.“ Þessi orð féllu í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1. Þar ræddi Jón Baldvin stöðu jafnaðarmanna og uppgang fasískra afla víða um heim. Hann hefur ekki trú á að Píratar haldi núverandi fylgi. Ekki sé innistæða fyrir því. Jón Baldvin segir brýnt að þjóðin fái nýja stjórnarskrá.

„Hér talar maður sem var harvítugasti talsmaður þess að við eftir hrun gengjum í samfélag lýðræðisríkja, Evrópusambandið. Ég hef endurskoðað þá afstöðu. Einfaldlega vegna þess að þegar ég horfi á Evrópu, þá sé ég Evrópusamband sem er nánast í sjálfsmorðsleiðangri vegna þess að pólitíska forystan hefur algjörlega brugðist - og það er kreppa eftir kreppu eftir kreppu. Peningasamstarfið er byggt á röngum grunni og stenst ekki. Það mun ekki standast nýtt áhlaup", sagði Jón Baldvin Hannibalsson á Morgunvaktinni.

„Sú stefna sem Evrópusambandið hefur rekið undir forystu Merkel gagnvart þeim þjóðum sem fóru verst út úr hruninu (þá er ég að tala um Grikkland, Kýpur, Íberíuskagann og Írland) er rugl! Tómt efnahagslegt rugl! Og ekki boðleg.  Frammistaða Evrópusambandsins gagnvart þeirri áraun sem fylgja flóttamannahræringum um allan heim sýnir algjört pólitískt forystuleysi, alltaf viðbrögð við atburðum eftir á, og skammarlega lítilmennsku.“ Er Jón Baldvin Hannibalsson með öðrum orðum ekki lengur fylgjandi því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu? „Það þýðir ekkert að tala um að ganga inn í brennandi hús.“

Jón Baldvin tekur þó fram að framtíðarsýnin sé óbreytt, að vera í nánu sambandi við aðrar lýðræðisþjóðir, sérstaklega á Norðurlöndum og við Eystrasalt, en hann sé pólitískur raunsæismaður. „Við göngum ekki inn í brennandi hús núna. Slökkvið fyrst eldana.“ 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi