„Við erum bara að reyna að átta okkur á þessu“

22.01.2016 - 09:04
Guðmundur Ingi Þorvaldsson er tilnefndur til bresku kvikmyndaverðlaunanna fyrir leik í aðalhlutverki í kvikmyndinni Chasing Robert Barker. Hann segist mjög hissa á tilnefningunni. „Þessi mynd hefur bara verið sýnd á Íslandi, var frumsýnd hérna á RIFF í haust og hefur ekkert farið í dreifingu annars staðar enn þá. Við erum því í skýjunum en líka svona pínu lost,“ segir Guðmundur Ingi.
Framleiðslufyrirtækið Pegasus kom að framleiðslu myndarinnar ásamt Imadeitfilms. Kvikmynd Gríms Hákonarsonar, Hrútar, er tilnefnd sem besta erlenda mynd ársins. 
 
Guðmundur er tilnefndur til National Film Awards í Bretlandi fyrir leik í aðalhlutverki í kvikmyndinni Chasing Robert Barker. Guðmundur segir þetta óvæntan glaðning. „Ég hafði ekki eina einustu hugmynd og það fyndna er að leikstjórinn hafði ekki hugmynd um þetta heldur. Ég hringdi náttúrulega í hann strax og hann kom alveg af fjöllum líka. Þannig að við erum bara að reyna að átta okkur á þessu vegna þess að það er eins og þetta sé eins og MTV, einhver vinsældakosning.“
 
Leikararnir sem einnig eru tilnefndir eru engir nýliðar, Daniel Craig fyrir nýjustu James Bond myndina Spectre, Colin Firth sem tilnefndur er fyrir Kingsman – Secret Service, Colin Farrel sem tilnefndur er fyrir Lobster og Tom Hardy fyrir Legend. 
Það kom Guðmundi skemmtilega á óvart að myndin veki athygli. 

„Þetta er sjálfstæð mynd, gerð fyrir frekar lítinn pening miðað við keppinauta mína í þessu og fjallar um mann af óræðum uppruna eins og hálf London er, það er svolítið verið að fjalla um það samfélag. Hann er svona papparazzi ljósmyndari, algjörlega að skrapa botninn í lífinu að hanga fyrir utan skemmtistað að reyna að ná mynd af frægu fólki. Þar nær hann mynd af frægum leikara og myndin fjallar um samskipti þeirra og þeirra líf.“

Guðmundur segir að aðalatriðið sé að koma svona myndum inn á kvikmyndahátíðir til að vekja á þeim athygli. Tilnefningin geri það örugglega, bæði á honum og leikstjóranum. „Þetta eru virt verðlaun, ég var að gúggla þetta sjálfur í gær af því að maður áttar sig ekki alveg á þessu. Þetta er alvöru þannig að auðvitað hlýtur þetta að gera það. Þetta hlýtur að styrkja myndina, allar umsóknir og vonandi opnar þetta manni og þessum strák, Daniel Florencio, einhverjar dyr því hann á það svo sannarlega skilið.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi