Vetrarfærð og víða versnandi veður

01.02.2016 - 09:21
Mynd með færslu
Vegagerðin fer af stað klukkan 10:00 í dag.  Mynd: RÚV
Færð getur versnað á Snæfellsnesi, í Dölum, Vestfjörðum og á Norðvestulandi í dag. Hálka er á Hellisheiði og Þrengslum og hálka eða hálkublettir víða á Suðurlandi samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Þæfingsfærð og óveður er á Reynisfjalli.

Nokkur hálka er á Vesturlandi segir Vegagerðin og ófært er á Fróðárheiði.  Óveður er í Staðarsveit og stórhríð á Útnesvegi. Skafrenningur er mjög víða á Vesturlandi, einkum á fjallvegum.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Vestfjörðum og snjókoma eða éljagangur á norðanverðum fjörðunum. Þá er skafrenningur mjög víða. Þæfingsfærð er á Kleifaheiði og Þröskuldum en unnið að hreinsun.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Norðurlandi en þó eru aðeins hálkublettir í Skagafirði. Ófært er um Hólasand og þungfært á Dettifossvegi.

Á Austurland er víðast hvar nokkur hálka inn til landsins, en frekar autt við sjávarsíðuna.

Hálka er á hringveginum á Suðausturlandi frá Höfn og áfram vestur. Óveður er í Öræfum. Þungfært er í Meðallandi.

 Blindhríð á norðanverðum Vestfjörðum

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að það hvessi  með ofanhríð um landið norðvestanvert. Blindhríð og 15-23 m/s verður á norðanverðum Vestfjörðum og síðdegis verður snjókoma og skafrenningur frá Snæfellsnesi og Dölum, vestur og norður um Strandir, Skaga, Fljót og utanverðan Eyjafjörð. Hringvegurinn frá Holtavörðuheiði til Akureyrar verður hins vegar að mestu í sæmilegu vari. Austan- og norðaustanlands verður vaxandi éljagangur og skafrenningur þegar líður á daginn.

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV