Vetnissprengja sprengd í Norður-Kóreu

03.09.2017 - 06:54
epa06180303 An undated photo released by the North Korean Central News Agency (KCNA), the state news agency of North Korea, on 03 September 2017 shows Kim Jong-un (3-R), chairman of the Workers' Party of Korea, chairman of the State Affairs
 Mynd: EPA-EFE  -  KCNA
Norðurkóresk stjórnvöld segja að tilraun með vetnissprengju hafi verið gerð á tilraunasvæði hersins í nótt. Tilraunin heppnaðist vel, segir í yfirlýsingu sem lesin var upp í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu. Stjórnvöld segja að hægt sé að koma vetnissprengjunni fyrir á flugskeyti.

Fyrr í morgun höfðu japönsk stjórnvöld staðfest að stór jarðskjálfti í Norður-Kóreu hafi verið af völdum kjarnorkutilraunar. Suðurkóreska veðurstofan segir skjálftann hafa verið um fimmfalt eða sexfalt stærri en skjálftann sem varð þegar stjórnvöld í Pyongyang gerðu síðustu kjarnorkutilraun sína. 

Fljótlega á eftir varð skjálfti af stærðinni 4,3 vegna hruns, að sögn kínversku veðurstofunnar. Mikil hætta gæti skapast vegna þessa, því geislavirk efni geta komist út í andrúmsloftið í gegnum opið sem hrunið skilur eftir sig. Japanskar flugvélar hafa verið sendar af stað til að þefa uppi geislavirk efni.

Um leið og skjálftans varð vart kallaði Moon Jae-In, forseti Suður-Kóreu, saman þjóðaröryggisráð sitt og viðbúnaður hersins var aukinn. Moon og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, voru sammála um það í símtali um helgina að auka þyrfti vígbúnað Suður-Kóreu til að verjast hugsanlegri árás nágrannanna úr norðri. 

Norðurkóreska ríkisfréttastöðin KCNA greindi frá því í gærkvöld að Kim Jong-un, leiðtogi ríkisins, hafi fylgst með vísindamönnum leggja lokahönd á vetnissprengjur í vopnaverksmiðju. Þær voru sagðar komast fyrir á langdrægum flugskeytum, og má því gera ráð fyrir að sams konar sprengja hafi verið sprengd í nótt.

Búast má við hörðum viðbrögðum af hálfu alþjóðasamfélagsins. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði snemma í morgun að það væri algjörlega óásættanlegt ef rétt reyndist að skjálftinn hafi orðið af völdum sjöttu kjarnavopnatilraunar Norður-Kóreu.