Vesturbærinn með rafmagn á varaleið um helgina

16.01.2016 - 10:00
Mynd með færslu
Það var dimmt yfir Vesturbænum í Reykjavík um tveggja tíma skeið í kvöld.  Mynd: RT  -  RÚV
„Farið verður í leit að biluninni á mánudag nema eitthvað gefi sérstakt tilefni til að ætla að leiðin sem nú er tengt eftir bregðist,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Veitna. Rafmagn fór af Vesturbæ Reykjavíkur í gærkvöld, allt frá Fornhaga að Öskjuhlíð, á tíunda tímanum í gærkvöld og var rafmagnslaust rúma tvo klukkutíma þar sem lengst var. Víðast tókst að koma rafmagni á innan tveggja stunda.

Eiríkur segir að bilun hafi komið upp í háspennustreng milli aðveitustöðvar við Meistaravelli og niður á háskólasvæðið. „Það eru margar spennustöðvar tengdar við þennan streng, þetta er óvenju stórt svæði.“ Eftir að rafmagn fór af hafi verið tengt eftir varaleiðum og það hafi tekið um klukkustunda að tengja notendur. Rafmagnið sé enn á varaleiðum. „Það er ótraustari staða, þetta er viðkvæmara á meðan ekki er búið að gera við strenginn,“ segir hann. „Það er ekkert sem gefur tilefni til að ætla að þetta verklag haldi ekki.“ Bilunarinnar verði leitað á mánudag með sérstökum búnaði. Þegar hún finnst verði grafið niður og þá fyrst komi í ljós hvers eðlis hún sé. 

Ljósastaurar og umferðarljós voru óvirk í gærkvöldi, bíógestir í Háskólabíói sátu í myrkvuðum sal og gestir á Radisson Blu, eða Hótel Sögu, lásu og spjölluðu við kertaljós á meðan, rétt eins og þúsundir íbúa hverfisins.  

Rafmagn fór einnig af í miðborg Reykjavíkur í gær, þá bilaði háspennustrengur í Hverfisgötu. Engin tengsl eru talin vera á milli þessara tveggja bilana.

  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV