Vestri – nýtt íþróttafélag á Vestfjörðum

15.01.2016 - 11:19
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Nýtt íþróttafélag Vestri verður stofnað í dag og ný stjórn kosin. Þessa helgi verður í fyrsta skiptið keppt undir merkjum félagsins sem verður til með sameiningu fimm íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum.

Undirbúningur að nýja félaginu hefur staðið í tæpt ár og verða Boltafélag Ísafjarðar, Sundfélagið Vestri á Ísafirði, Blakfélagið Skellur á Ísafirði, Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar og knattspyrnudeild Ungmennfélagsins í Bolungarvík sett undir einn hatt. Hjalti Karlsson, formaður sameiningarnefndar segir margar hagræðingar felast í sameiningunni: „Það er ekki bara að allir eru að spila fyrir sama félag, undir sama merki í sama búning heldur er ýmis önnur hagræðing í viðskiptahlið málsins, aðföng, kaup á búningum, styrktarsamningar og ferðakostnaður, sem geta falist tækifæri í.“

Þessa helgi mun fyrsta liðið keppa undir merkjum nýstofnaðs félags, ungir knattspyrnustrákar. Öll félögin hafa samþykkt sameiningu á félagafundum og í dag verður ný stjórn kosin en ljóst er að sameiningin mun ekki ganga í gegn að fullu fyrr en fyrr en öll félögin hafa samþykkt sameininguna á sínum aðalfundum á vormánuðum og nýskipaðar stjórnar býður verðugt verk: „Það er eitt að stofna félag en svo er að ýta því úr vör með kröftugum hætti. Það felst meðal annars í því að það þarf að finna félaginu nýtt merki, nýja liti og nýja búninga. Það verður nóg að gera hjá nýrri stjórn.“


Deila fréttMynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
15.01.2016 - 11:19