Verri staða leigjenda en íbúðareigenda

20.04.2014 - 13:31
Mynd með færslu
Nærri fimmtungur leigjenda býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað og ver sem nemur meira en 40 prósentum af ráðstöfunartekjum sínum í kostnað af húsnæði. Á sama tíma og vaxandi hluti leigjenda býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað fækkar þeim meðal eigenda húsnæðis.

Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands. Að meðaltali varði fólk tæpum sautján prósentum af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað í fyrra. Til húsnæðiskostnaðar telst auk húsaleigu eða afborgana lána kostnaður við viðhald, tryggingar, rafmagn, hiti og fasteignagjöld. Hlutfallið sem fólk greiðir í kostnað af húsnæði hefur haldist nokkuð stöðugt frá árinu 2006. Þó hefur sú breyting orðið á að byrðin hefur aukist hjá þeim sem leigja en orðið léttari hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

Tæplega níu prósent íbúa búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað. Það þýðir að sá kostnaður er meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum þeirra. Þetta hlutfall hefur lækkað nokkuð undanfarin ár. Sé hins vegar litið á húsnæðiskostnað fólks eftir því hvort það býr í eigin húsnæði eða greiðir húsaleigu kemur í ljós að hlutfall leigjenda sem býr við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað hefur hækkað. Átján prósent leigjenda á almennum markaði greiða meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað en þetta hlutfall var 9,4 prósent árið 2007. Fjórtán og hálft prósent þeirra sem leigðu húsnæði í gegnum hverskyns búsetuúrræði, til dæmis í félagslega kerfinu, býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað nú miðað við 3,6 prósent þegar það var lægst árið 2006.

Á sama tíma og langtímaþróunin er sú að vaxandi hlutfall leigjenda býr við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað hefur hlutfallið lækkað meðal eigenda, einkum þeirra sem eru með húsnæðislán. Tæplega sjö prósent þeirra greiða meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði en voru 17 prósent árið 2006.