Verkfall: Nemendur missa af tónleikum

24.11.2014 - 16:34
Mynd með færslu
Verkfall tónlistarkennara hefur áhrif á fjölmarga tónleika og viðburði sem til stendur að halda víða á landsbyggðinni á aðventunni. Algengt er að nemendur taki þátt í slíkum tónleikum en þeir mega það ekki ef kennarar þeirra taka þátt einnig.

„Við megum ekki standa hlið við hlið og spila saman eða syngja,“ segir Margrét Lára Þórarinsdóttir, söngkennari í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum og Tónlistarskólanum í Fellabæ. Hún segir að á smærri stöðum hafi tónlistarkennarar gjarnan umsjón með flestum tónlistarviðburðum og þar af leiðandi geti nemendur ekki tekið þátt í þeim. Það eigi maðal annars við að Jólaóratoríu Bachs sem flutt verður í Egilsstaðakirkju og í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði 30. nóvember.  „Það er búið að reynast mjög erfitt að undirbúa hana þar sem marga nemendur vantar sem til stóð að tækju þátt. Þetta er stórt tækifæri fyrir krakkana að taka þátt í uppfærslu á svo stóru verki,“ segir Margrét Lára.

Gamla fólkið verður af dægradvöl

Þá segir hún að hvorki stúlknakórinn Liljurnar né hljóðfæranemdur megi ekki taka þátt í árlegum jólatónleikum Héraðsdætra og Liljanna enda stjórni hún báðum kórunum og aðrir kennara taki einni þátt. Þá geta Liljurnar ekki heldur sungið á aðventutónleikum Egilsstaðkirkju og Bítlasýningu í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Í verkfallinu geti tónlistarskólinn á Egilsstöðum ekki heimsótt hjúkrunardeild sjúkrahússins þar í bæ og  því verði gamla fólkið af þessara dægradvöl en skólinn heimsótti hjúkrunardeildina að jafnaði tvisvar í mánuði.

Glötuð tækifæri

Daníel Arason, skólastjóri Tónlistarskólans á Egilsstöðum, segir að nemendur tónskóla úti á landi fái ýmis tækifæri til að taka þátt í tónleikum sem atvinnumenn hefðu sinnt væru samskonar tónleikar haldnir í Reykjavík. „Það er til dæmis gott tækifæri fyrir 17 ára tónlistarnema að fá að spila í Jólaóratoríunni eftir Bach. Ég sé þetta fyrst og fremst þannig að nemendurnir verði af tækifærum,“ segir Daníel.  

Hann segir aðeins tímaspursmál hvenær jóltónleikum tónskóla verði aflýst. Jafnvel þó að samningar tækjust í þessari viku væri mjög tæpt að ná því. „Með hverjum deginum sem líður aukast líkur á að ekkert verði framkvæmt,“ segir Daníel.

Herða sultarólina

Margrét Lára segir verkfallið valda rofi í tónlistarnámi. „Þetta er búið að setja strik í reikninginn fyrir þá sem eru að undirbúa sig fyrir stigs- og áfangapróf. Þetta er eins og að læra tungumál þetta tekur tíma og ástundun. Ég hef áhyggjur af nemendum og kennurum líka. Hvort einhverjir kennarar hverfi til annara starfa og annara landa,“ segir Margrét Lára. Verkfallið hefur nú staðið síðan 22. október og kennarar hafa búið við skertar tekjur á þeim tíma. Verkfallssjóður greiðir 6 þúsund krónur á dag fyrir skatt. Á 30 dögum gerir það 180 þúsund en Daníel segir að grunnlaun kennara í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum séu á bilinu 260-350 þúsund krónur.

Samningafundur í kjaradeilunni hófst klukkan 13 í dag og stóð enn nú á fimmta tímanum.