Verkfall boðað 22. október

15.10.2014 - 07:48
Mynd með færslu
Samninganefndir tónlistarskólakennara og sveitarfélaga sátu á samningafundi fram á kvöld í gær. Tónlistarskólakennarar hafa boðað til verkfalls 22. október, náist ekki samningar fyrir þann tíma.

Sigrún Grendal Jóhannesdóttir, formaður Félags tónlistarskólakennara segir að kennarar hafi reynt að draga fram áherslur og hugmyndir úr tillögum sínum sem þau telja að geti þjónað hagsmunum beggja við gerð kjarasamnings. 

Samninganefnd sveitarfélaga ætli að skoða tillögur tónlistarskólakennara fram að hádegi á fimmtudag, þá er næsti samningafundur boðaður. Sigrún segir að sér finnist ekki ljóst hvort sveitarfélögin hafi í raun og veru áhuga á að gera kjarasamning við tónlistarskólakennara á sömu nótum við aðra kennara. Tónlistarskólakennarar séu ef eitthvað er komnir nær markmiðum í þróun á kjarasamningum sem varða breytingar í skólastarfi, en aðrir kennarar. Hún segir það alveg ljóst að tónlistarskólakennarar og stjórnendur tónlistarskóla sætti sig ekki við að vera settir skör lægra en aðrir kennarar, hvað laun varðar.