Veiðigjöld stóðust ekki jafnræðisreglu

29.01.2016 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Páll Baldursson  -  Raufarhafnarhöfn
Í gær féll dómur í máli Fiskvinnslunnar Halldórs á Bakkafirði gegn íslenska ríkinu þar sem ljóst varð að Ríkið þarf að endurgreiða veiðigjöld sem lögð voru á aflamarksbáta á grásleppuveiðum. Útgerðarhjónunum Hilmu Hrönn Njálsdóttur og Áka Guðmundssyni á Bakkafirði þóttu gjaldtökur ríkisins af grásleppuveiðum þeirra orðnar ansi íþyngjandi eftir fiskveiðiárið 2012-2013. Dómurinn felur í sér að ríkið mun endurgreiða ríflega 100 útgerðum veiðigjöld vegna grásleppuveiða á þriggja ára tímabili.

Málarekstur þessi hefur staðið yfir í rúm tvö ár og segir Jón Jónsson hæstarréttarlögmaður niðurstöðuna fordæmisgefandi og hefur verið tekið undir það í Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Hjónin hjá Fiskvinnslunni Halldóri á Bakkafirði gera út aflamarksbátinn Halldór NS 302. Málið snýst um að krókaleyfisbátar allt í kringum þau þurftu engin veiðigjöld að greiða og þótti þeim það ósanngjarnt. Við tók málarekstur sem nú er lokið með sigri fiskvinnslunnar.

 Sömu veiðarfæri og sömu leyfi - en veiðigjöld að auki

„Það er mjög ósanngjarnt að við borgum svimandi upphæðir á sama tíma og samsvarandi bátar þurfa ekki að borga neitt og jafnvel stærri bátar en við,“ segir Áki Guðmundsson. „Við erum náttúrulega með sömu veiðarfærin á sömu leyfunum. Þannig að það er óeðlilegt að við séum ekki líka þá á sömu gjöldunum. Því ég get keypt leyfin þeirra og þeir geta keypt leyfin mín.“ 

Stóðst ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar

Úrskurður Hæstaréttar felur í sér þá niðurstöðu að veiðigjöldin sem lögð voru á aflamarksbáta á grásleppuveiðum stæðust ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Að sögn Jóns Jónssonar hæstarréttarlögmanns sem sótti málið er óvenjulegt að skattalög standist ekki jafnræðisregluna en um mikið réttlætismál sé að ræða fyrir útgerð þeirra hjóna og sambærilegra aðila. Það hafi verið stór ákvörðun og fjárhagslega íþyngjandi að sækja málið alla leið í Hæstarétt. Áhrif dómsins létti vonandi undir með rekstri lítilla útgerða eins og þeirra hjóna, þar sem veiðigjöld sem þau sem um ræddi á viðkomandi tímabili hafi verið mjög íþyngjandi.  

Sérfræðingar innan Sjávarútvegsráðuneytisins hafa staðfest fordæmisgildi málsins og skoða nú hvernig verður farið að því að endurgreiða þeim ríflega hundrað útgerðum sem um ræðir hin ofgreiddu veiðigjöld. Endurgreiðslurnar munu líklega kosta ríkið í kringum 100 milljónir króna og ná til allra aflamarksbáta sem greiddu veiðigjöld vegna grásleppuveiða á því tímabili sem um ræðir.      

   

Mynd með færslu
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir