Vefmyndavél við Grímsvötn

10.04.2014 - 21:17
Mynd með færslu
Vefmyndavél hefur verið sett upp á Grímsfjalli með útsýni í vestur, yfir Grímsvötn, eina virkustu eldstöð landsins. Vélin sendir ljósmyndir á tíu mínútna fresti, en jarðeðlisfræðingar geta einnig fengið beina útsendingu þaðan, þegar vísbendingar eru um eldsumbrot eða hlaup.

Myndavélin var sett upp nýlega, og fyrstu myndirnar birtust á mánudaginn, segir Björn Oddsson, verkefnisstjóri hjá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, sem stóð fyrir uppsetningu vélarinnar ásamt Neyðarlínunni og Jöklarannsóknarfélaginu. Myndirnar koma í gegnum fjarskiptabúnað Neyðarlínunnar frá Grímsfjalli, þaðan sem gögn koma einnig frá jarðskjálftamælum og veðurathugunarstöð Veðurstofunnar. „Vefmyndavélin og ljósmyndir úr henni eru öllum aðgengilegar, en þegar eitthvað gerist í Grímsvötnum, þá getum við einnig stillt vélina þannig að jarðeðlisfræðingar og aðrir geti fylgst með þróun mála í beinni útsendingu,“ segir Björn.