Veðurstofan hækkar viðbúnaðarstig

18.08.2014 - 12:20
Mynd með færslu
Sterk hrina skjálfta hefur orðið austur af Bárðarbungu síðasta klukkutímann. GPS mælingar á svæðinu staðfesta kvikuhreyfingar undir yfirborðinu. Veðurstofan hefur hækkað viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld úr gulu í appelsínugult, og telur líkur á gosi.

Kristín Jónsdóttir fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands segir virknina halda áfram á tveimur stöðum. Það sé mat jarðvísindamanna að þarna sé kvikan á leið upp undir skorpuna á tveimur stöðum.

„Það eru líkur á gosi, eldstöðin sýnir stöðuga virkni og við fylgjumst vel með, “ segir Kristín.

Veðurstofan hefur ákveðið að hækka viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld úr gulu í appelsínugult viðvörunarstig. 

Almannavarnir áfram á viðbúnaðarstigi

Víðir Reynisson yfirmaður Almannavarna segir það ekki hafa áhrif á viðbúnað Almannavarna. Þær séu áfram á viðbúnaðarstigi, og ekki sé talin ástæða til að rýma svæðið sem eldgos og jökulhlaup gæti haft áhrif á. Þar sé fyrst og fremst horft til Jökulsár á Fjöllum. 

„Við teljum að það tæki tíu tíma fyrir vatnið að berast niður að sjó, svo þar vinnur tíminn með okkur,“ segir Víðir.