Varla stætt í Grundarfirði

26.03.2014 - 12:06
Mynd með færslu
Ekkert hefur verið flogið innanlands í morgun vegna veðurs. Mikil úrkoma hefur fylgt hvassviðrinu vestanlands í dag, sérstaklega í Ólafsvík og Grundarfirði. Anna Guðrún Aðalsteinsdóttir íbúi í Grundarfirði segir að þar sé varla stætt og að fólk komist ekki á milli bæja þar um kring.

Stormurinn hefur náð hámarki á vestanverðu landinu, lægja tekur með deginum og dregur úr úrkomu eftir hádegi. Hægari vindur hefur verið norðanlands, en búast má við úrkomu þar seinna í dag og í kvöld, þó ekkert í líkingu við það sem hefur verið vestanlands í dag. Athugað verður með flug um hálf eitt.