Varhugavert ferðaveður á austanverðu landinu

11.02.2016 - 06:57
Blindbylur á Egilsstöðum.
 Mynd: RÚV
Veðurstofan gerir ráð fyrir að það hvessi nokkuð duglega af suðaustri á austanverðu landinu. Með suðaustlægri áttinni berst heldur mildara loft inn yfir austanvert landið en verið hefur og þá dregur víðast hvar úr frostinu.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur jafnframt fram að á 
láglendi suðaustan- og austanlands megi búast við allt að 5 stiga hita en
að áfram sé frost í fjallahæð. Suðaustan 10 til 18 metrar á sekúndu á austanverðu landinu með snjókomu og skafrenningi en slyddu við suðaustur ströndina. Ferðaveður á austanverðu landinu er því varhugavert.

 

Talsverð úrkoma í kortunum suðaustanlands, snjókoma til fjalla en slydda á láglendi - jafnvel rigning sums staðar. Saman veit þetta á fremur leiðinlega færð, krapa og hálku. Austan og norðaustanlands er snjómugga víða og einnig má búast við stöku éljum suðvestanlands, en þar er þó mun hægari vindur.

Á Vestfjörðum og Norðvesturlandi er einna helst þurrt og bjart. Á morgun
kólnar aftur og helgin lítur ljómandi vel út, segir í hugleiðingum veðurfræðings um veðurhorfur. 

Hálkublettir eru á Sandsskeiði og í Þrengslum en hálka og éljagangur á Hellisheiði. Hálka og hálkublettir eru á Suðurlandi. Hálkublettir og éljagangur er á Reykjanesbraut og Reykjanesi.

Hálka er á Vesturlandi og Vestfjörðum og sumstaðar snjóþekja og éljagangur.
Það éljar eða snjóar á Norðurlandi og þar er snjóþekja eða hálka víðast hvar.

Þæfingsfærð og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og Víkurskarði. Ófært er á Hálsum og Hófaskarði.

Á  Austurlandi er ófært á Fjarðarheiði, Fagradal og Vatnsskarði eystra, annars er snjóþekja og hálka víða á vegum og snjókoma. Þæfingur er á Hróarstunguvegi.

Með ströndinni suðaustanlands er þæfingsfærð en þungfært er á Breiðamerkursandi.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV