Vara ferðafólk við Öskjuvatni og Víti

04.04.2012 - 18:23
Mynd með færslu
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Húsavík vara fólk við því að fara niður að Öskjuvatni og niður í Víti vegna koldíoxíðmengunar sem þar gæti leynst. Vatnið hefur ekki lagt og grunar sérfræðinga að jarðhræringar valdi því.

Vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og jarðvísindastofnun Háskóla Íslands fóru í könnunarflug á dögunum til að athuga hversvegna vatnið hafi ekki lagt. Mjög ólíklegt þykir að veðurfræðilegir þættir hafi haft þau áhrif og því hafa vaknað upp grunsemdir um að jarðhræringar valdi hækkun hitastigs í vatninu. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að auknum jarðhita geti fylgt meira útstreymi af koldíoxíði. Ef svo er getur það safnast saman í dældum ef kyrrt er. Möguleiki sé á því að við Öskjuvatn og niðri í Víti sé koldíoxíð. Til stendur að kanna aðstæður seinna í mánuðinum.