Valur í bikarúrslit eftir sigur á Haukum

26.02.2016 - 19:07
Valur mun leika til úrslita í Coca Cola-bikar karla eftir sigur á Haukum í undanúrslitum, 24-22, í leik sem fram fór í Laugardalshöll. Valsmenn voru ávallt skrefi á undan og náðu Haukar ekki að svara góðum varnarleik Valsmanna sem munu annað hvort leika gegn Stjörnunni eða Gróttu í úrslitum en liðin mætast í síðari undanúrslitaleiknum í kvöld.

Valur byrjaði leikinn mun betur og náðu Valsmenn mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik í stöðunni 8-4. Haukar hresstust eftir því sem að leið á hálfleikinn og staðan að honum loknum var 13-12 fyrir Valsmenn.

Mikil spennan var í seinni hálfleik en Valsmenn voru jafnan skrefi á undan. Haukar náðu að jafna leikinn í 20-20 með marki Tjörva Þorgeirssonar þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þá skelltu Valsmenn hins vegar í lás í vörninni og unnu tveggja marka sigur, 24-22.

Ómar Ingi Magnússon var frábær í leiknum og skoraði 10 mörk fyrir Valsmenn. Hlynur Morthens var einnig frábær í markinu og varði 20 skot. Hjá Haukum skoruðu Adam Haukur Baumruk og Janus Daði Smárason sex mörk hvor.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður
Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður