Valdi börn fram yfir peninga

06.10.2015 - 18:12
Sigurbaldur Frímansson tók u-beygju í lífinu fyrir tveimur árum þegar hann sneri baki við fjármálastofnunum og hóf störf á leikskóla.

Hann stundaði nám í Verzlunarskólanum og hóf síðan meistaranám í fjármálum í Háskólanum í Reykjavík. Eftir útskrift starfaði hann hjá bæði banka og fjármálastofnun. Stærðfræði og tölur lágu vel fyrir Sigurbaldri „en að sökkva sér ofan í þetta og búa til þann aukametnað sem þarf til að ílengjast í starfi, hann einhvern veginn kom ekki, ekki þessi tilfinning sem síðar meir kom á leikskólanum,“ segir hann.

Margir áhugasamir um launin
Fjölmargir hafa forvitnast um vistaskipti Sigurbaldurs og hann neitar því ekki að ýmsir séu áhugasamir, oft á tíðum fólk sem hefur sjálft áhuga á að breyta til í lífinu. „Fólk spyr um launin. Þau eru ekki há á leikskólanum, því miður. En í þeirri stöðu sem ég var í á vinnumarkaðinum, þá finnst mér launalækkunin sem ég tók á mig, ánægjan sem ég hef fengið til baka er margfalt hærri, segir hann. 

Fjármálaverkfræðin gagnast á leikskólanum
Þegar hann ber saman störfin segir hann að ávinning af störfum á leikskólanum komi strax en lengur þurfi að bíða í bankakerfinu. Hann segir að fjármálaverkfræðin hafi gagnst sér í störfum á leikskólanum, þar eru ýmsir ferlar sem miða að því sama og í verkfræðinni; að safna saman gögnum og búa til flotta niðurstöðu. 

Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi