Útlit sviðsins í Eurovision kynnt

Erlent
 · 
Eurovision
 · 
Menningarefni

Útlit sviðsins í Eurovision kynnt

Erlent
 · 
Eurovision
 · 
Menningarefni
15.02.2016 - 14:18.Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Aðdáendur Eurovision söngvakeppninnar bíða þess jafnan með eftirvæntingu að fá að vita hvernig sviðið kemur til með að líta út. Sömu hönnuðir hafa verið fengnir í verkið og hönnuðu sviðsmyndina Malmö árið 2013; Frida Arvidsson og Viktor Brattström.

Sviðshönnunin var kynnt á vefsíðu keppninnar í dag. Hönnun þeirra í ár er sögð kraftmikil og kjörkuð en stuðst er við lýsingu að miklu leyti til að skapa dýpt. Sven Stojanovic, framleiðandi keppninnar, segist vera mjög hrifinn af hönnuninni. Sviðið líti vel út og bjóði upp á nokkuð sem ekki hafi sést áður.  

Viktor Brattström segir hönnunina meðal annars fela í sér nýstárlega notkun á led-ljósavegg. Yfirleitt sé slíkur veggur í bakgrunninum en þau hafi brotið upp það form með því að gera listafólkinu, sem fram kemur í keppninni, kleift að fara inn um hann. Pælingin sé að bjóða upp á tækifæri til ýmiss konar sjónhverfinga. 

Þjóðin kaus lögin Augnablik, Á ný og Spring yfir heiminn áfram í úrslit Söngvakeppninnar 2016 á laugardagskvöld, þegar seinni undanúrslit fóru fram í Háskólabíói. Áður höfðu lögin Hugur minn er, Óstöðvandi og Raddirnar tryggt sér sæti í úrslitunum, sem fram fara um næstu helgi í Laugardalshöll. Þá kemur í ljós hvaða lag verður valið til að verða framlag Íslands í Eurovision í Stokkhólmi í maí.

Hér eru lögin sem komust áfram í seinni undankeppninni, sem fram fór á laugardagskvöld: 

Augnablik - Lag: Alma Guðmundsdóttir og James Wong. Texti: Alma Guðmundsdóttir, James Wong og Alda Dís Arnardóttir. Flytjandi: Alda Dís Arnardóttir.
Á ný - Lag og texti: Greta Salóme Stefánsdóttir. Flytjandi: Elísabet Ormslev.
Spring yfir heiminn - Lag: Júlí Heiðar Halldórsson. Texti: Júlí Heiðar Halldórsson og Guðmundur Snorri Sigurðarson. Flytjendur: Þórdís Birna Borgarsdóttir og Guðmundur Snorri Sigurðarson.

Hér eru lögin þrjú sem valin voru um síðustu helgi:

 

Raddirnar - Lag og texti: Greta Salóme Stefánsdóttir. Flytjandi: Greta Salóme Stefánsdóttir.
Hugur minn er - Lag og texti: Þórunn Erna Clausen. Flytjandi: Erna Hrönn Ólafsdóttir og Hjörtur Traustason.
Óstöðvandi - Lag: Kristinn Sigurpáll Sturluson, Linda Persson og Ylva Persson. Texti: Karlotta Sigurðardóttir. Flytjandi: Karlotta Sigurðardóttir.