Uppbyggingarsjóður úthlutar 55,5 milljónum

03.02.2016 - 22:51
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Gunnarsson  -  austurbru.is
Úthlutað var úr Uppbyggingarsjóði Austurlands í annað sinn við athöfn í Skaftfelli á Seyðisfirði í dag. Sjóðnum er ætlað að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni í samræmi við sóknaráætlun Austurlands og er sambærilegur við aðra Uppbyggingarsjóði sem úthluta samkvæmt sóknaráætlunum Landshlutanna. Alls er úthlutað 55,9 milljónum til 90 verkefna. Ferðaþjónustuverkefni hlaut hæsta styrkinn í ár. Einnig hlutu listamiðstöðin Skaftfell og LungA listahátið ungs fólks á Austurlandi veglega styrki.

Markaðsetning á beinu flugi og wasabi-ræktun

Ferðaþjónustufyrirtækið Tanni Travel styrk að upphæð 4,3 milljónir króna úr Uppbyggingarsjóði Austurlands í ár. Styrkurinn er veittur til sölu flugsæta með beinu flugi milli Egilsstaða og Lundúna sem og verkefnisins Meet the Locals. Seyðfirðingar eiga tvo aðila sem saman hljóta 5,2 milljónir; Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, hlýtur 2,7 m.kr. til tveggja verkefnaÞá hlýtur LungA – listahátíð ungs fólks á Austurlandi 2,5 m.kr. Frumkvöðlar sem ætla sér að hefja wasabi-ræktun í Gróðrastöð Barra á Fljótsdalshéraði, Wasabi Iceland ehf. hljóta 2,2 m.kr. til vefjaræktunar á þessari japönsku kryddjurt í háþróaðri aðstöðu.

150 umsóknir og 55,5 milljónum úthlutað

Í tilkynningu frá Austurbrú segir Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Austurlands, ánægjulegt hversu margar umsóknir bárust. Hún telur að það hafi skilað sér í auknum fjölda umsókna að ákveðið var að þýða helstu umsóknargögn yfir á ensku. Signý minnist einnig á að það hafi líka vakið athygli hversu öflugar umsóknir um skógræktarverkefni hefðu borist. Greinin hafi verið áberandi í styrkúthlutunum áður en aldrei með jafn fjölbreyttum og áhugaverðum verkefnum og nú.

Alls bárust 150 umsóknir sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Áætlaður heildarkostnaður við þessi 150 verkefni er rúmar 807 m.kr. Sótt var um rúmar 221 m.kr. og úthlutað sem fyrr segir 55,5 m.kr. sem er örlítið lægri upphæð en í fyrra þegar 58 m.kr. var úthlutað. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og því hljóta þau verkefni styrk sem uppfylla flest skilyrði samkvæmt úthlutunarreglum. Vandaðar umsóknir og viðskiptaáætlanir fyrir stærri verkefni töldust einnig afar mikilvægar við mat á umsóknum, segir í tilkynningu.

Nánari upplýsingar um styrkþega má finna hér.

 

Mynd með færslu
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV