Ungt fólk í leiguíbúðum leitar til umboðsmanns

10.04.2017 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Umsóknir vegna greiðsluerfiðleika hjá umboðsmanni skuldara hafa ekki verið fleiri fyrstu þrjá mánuði ársins síðan árið 2014. Mestu munar um umsóknir um greiðsluaðlögun, sem hafa ekki verið fleiri á tímabilinu í fjögur ár. Yfirlögfræðingur embættisins segir ungt fólk á leigumarkaði eiga í mestu erfiðleikunum.

Eftir fordæmalaust ástand skömmu eftir bankahrun fór umsóknum vegna greiðsluerfiðleika fækkandi hjá embætti umboðsmanns skuldara, en að undanförnu hefur málunum tekið að fjölga á ný. Til marks um þróunina má nefna að í marsmánuði síðastliðnum voru umsóknir vegna greiðsluvandamála 145 hjá embættinu, en leita þarf aftur til október 2014 eftir viðlíka málafjölda þegar umsóknirnar voru 155. 

Umsóknum fjölgaði um 21 prósent milli ára

Umsóknirnar voru um þúsund talsins árin 2015 og 2016 en á fyrstu þremur mánuðum ársins rötuðu 410 umsóknir inn á borð umboðsmanns skuldara, og hafa ekki verið fleiri á tímabilinu síðan árið 2014, þegar þær voru 588. Umsóknirnar voru 338 á sama tímabili í fyrra, og hefur því fjölgað um 72, eða um 21 prósent milli ára.

Flestar umsóknirnar það sem af er ári eru um ráðgjöf, en mestu munar um fjölgun umsókna um greiðsluaðlögun, sem er stærsta úrræði stofnunarinnar vegna alvarlegs skuldavanda. Þær hafa ekki verið fleiri síðan árið 2013.

Unga kynslóðin á leigumarkaði leitar til umboðsmanns

Lovísa Ósk Þrastardóttir, yfirlögfræðingur hjá umboðsmanni skuldara, segir að meiri vitund og umræða um úrræði embættisins skýri aukinn málafjölda að hluta.

„En það sem við sjáum, í þessum umsóknum sem eru að koma til okkar, er að um er að ræða tekjulága einstaklinga á leigumarkaði sem eru í framfærsluvanda og skulda oft neysluskuldir með óhagstæðum lánaskilmálum,“ segir Lovísa í samtali við fréttastofu. „Þannig að þetta er unga kynslóðin á leigumarkaðnum sem er að koma til okkar.“

Lovísa segir tekjur þessa hóps ekki duga fyrir húsaleigunni og almennri framfærslu og þá hafi hann litla sem enga greiðslugetu til að borga af skuldum. „Það er ljóst að unga kynslóðin sem er á leigumarkaði á bara erfitt uppdráttar og það er að sýna sig hjá okkur.“  

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV