Mynd með færslu
15.02.2016 - 18:26.Bergsteinn Sigurðsson.Menningin, .Kastljós
Halldóra Geirharðsdóttir fjallar um röng og rétt viðbrögð.

Klukkan fimm um nótt fyrir ekki löngu síðan vakna ég við að dóttir mín hringir í mig. Ég verð skelfingu lostin. Það hefur eitthvað hræðilegt gerst.

Hún segir mér frá því að leigubílstjóri hafi tekið drukkna vinkonu hennar upp í bílinn til sín, káfað á henni, svona til að finna hvort hún væri nógu drukkin til að hann gæti komið fram vilja sínum, séð að hún var með of mikilli meðvitund, hendir henni út, tekur enga greiðslu, kemur sér í burtu.

Vinkonan kemur til dóttur minnar, þær hringja á lögregluna, það er tekin skýrsla, allt algjörlega elskulegt og yndislegt, hún kemst til foreldra sinna og það er punkturinn sem dóttir mín hringir í mig.

Viðbrögð mín voru skelfileg. Það sem fer í gegnum huga mér er: „Djöfulsins vesen er á þeim. Hringja út heilt lögreglulið út af einhverju svona.“

Ég sagði ekki neitt því ég átta mig á því að ég er að bregðast við úr mínum tíma. Þegar kynferðisbrotamenn og barnaníðingar voru „dónakallar“. Þegar það var sett minnkunarorð á glæpamenn. Ég hugsaði: Já, ég er að bregðast við eins og samfélagið. Það skiptir öllu máli þegar fólk segir manni frá að maður heyri söguna þeirra en spili ekki sína eigin sögu og sinn eigin bakgrunn.

Og ég segi bara: Ungar konur í dag. Þið eruð stórkostlegar!