Umhverfisráðherra: „Það þarf að loka“

18.04.2017 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, segir að loka þurfi kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík. Frá þessu greinir hún á Facebook og segir að nú sé nóg komið, í kjölfar frétta um að eldur hafi kviknað í verksmiðjunni.

Í færslunni telur Björt upp fjögur atriði sem rannsaka þurfi betur, á meðan verksmiðjan yrði lokuð. Það fyrsta er hvers vegna íbúar í grennd við verksmiðjuna fá einkenni sem mengunarmælingar geti ekki skýrt. Þar á hún við allan þann fjölda íbúa í Reykjanesbæ sem hafa kvartað til Umhverfisstofnunar vegna mengunar og sumir hafa leitað til lækna.

„Í öðru lagi þarf að kanna vinnuaðstæður sérstaklega. Á sameiginlegum fundi fyrir umhverfis og samgöngunefnd lýsti forstjórinn því, aðspurður um hugsanlega hækkun á Arsen í andrúmslofti, að starfsmennn væru að opna út vegna þess að þeim væri svo heitt. Þessvegna losaðist út mengun beint af gólfinu sem að væri ekki búin að fara í gegn um reykhreinsikerfi. Hvað komast þessir sömu starfsmenn í mikla snertingu við alls konar óæskileg efni?,“ segir Björt í færslunni.

Í þriðja lagi segir hún að kanna þurfi hvernig verksmiðjan sé fjármögnuð. „Það er ljóst á öllu að fyrirtækið þarf fjármagn. Hverjir eru að bjóða það fram núna? Ég ætla rétt að vona að það séu ekki sameiginlegir sjóðir þeirra sömu landsmanna og ýta á að fyrirtækið loki,“ segir Björt.

Að lokum gefur Björt lítið fyrir orð Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Suðurnesja, sem sagði við fréttastofu í morgun að hann hefði ekki haldið að starfsmenn hefðu verið í hættu vegna eldvoðans. 

„Hvernig hafa starfsmenn nákvæmlega verið öruggir þegar eldsvoðinn í nótt braust út,“ spyr Björt. Sjá má færsluna hér að neðan.