Umdeild YouTube-stjarna í Íslandsheimsókn

22.08.2017 - 20:29
Vinsælasta YouTube-stjarna í heimi var á Íslandi um helgina. Svíinn Felix Arvid Ulf Kjellberg kallar sig PewDiePie og tæplega 57 milljónir manna eru áskrifendur að YouTube-rás hans, þar sem birtast einkum myndbönd af honum að spila tölvuleiki og tjá sig á óheflaðan hátt um það sem fyrir augu ber. Myndbönd hans eru samtals með tæplega 16 milljarða áhorfa frá upphafi og í nýjasta myndbandinu, sem birtist í dag, er sýnt frá Íslandsheimsókn hans.

Kjellberg olli fjaðrafoki í fyrr á árinu þegar hann grínaðist með nasisma og gyðingahatur sem varð til þess að bæði YouTube og Disney slitu formlegu samstarfi sínu við hann.

Fréttastofa hefur upplýsingar um að Kjellberg hafi komið til landsins á fimmtudag ásamt kærustu sinni, ítölsku YouTube-stjörnunni Marziu Bisognin, og af myndbandinu að dæma eru þau nú farinn af landi brott. Á meðan á dvölinni stóð gerðu þau flest það sem ferðamönnum er uppálagt: skoðuðu útsýnið úr Hallgrímskirkjuturni, borðuðu í Perlunni, ferðuðust Gullna hringinn, fóru í hvalaskoðun og Bláa lónið og dáðust að norðurljósunum.

Kjellberg var mjög hrifinn af ferðinni, ekki síst fiskisúpum sem hann gæddi sér á í tvígang, og klykkir út með góðri einkunn: „Ég dýrka Ísland mjög, mjög, mjög mikið,“ segir hann að kvöldlagi í Bláa lóninu. Þegar þetta er skrifað sýnir teljarinn á YouTube að um hálf milljón manna hafi horft á myndbandið en miðað við áhorfstölur á önnur myndbönd á PewDiePie-rásinni má ætla að sú tala gæti tífaldast áður en yfir lýkur.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV