Umdeild fjölmiðlalög staðfest í Póllandi

07.01.2016 - 21:59
epa05040782 Polish President Andrzej Duda walks past a People's Liberation Army honor guard during a welcome ceremony at the Great Hall of the People in Beijing, China, 25 November 2015. The President of Poland is on an official visit to China,
Duda í Kína á dögunum  Mynd: EPA
Andrzej Duda, forseti Póllands, staðfesti í dag ný fjölmiðlalög sem auðvelda nýrri íhaldsstjórn að skipa nýja stjórn ríkisútvarps og -sjónvarps. Evrópusambandið hefur gagnrýnt lögin harðlega.

Samkvæmt nýju lögunum hefur fjármálaráðherra Póllands heimild til að ráða og reka yfirmenn ríkisútvarpsins og ríkissjónvarpsins. Þar til lögin taka gildi hefur sérstök eftirlitsnefnd með fjölmiðlum þá heimild en ekki einstaka ráðherrar. Alþjóðabandalag blaðamanna, IFJ, og fleiri bandalög í Evrópu sem hafa eftirlit með fjölmiðlum hafa gagnrýnt nýju lögin harðlega.

Það hefur Günther Oettinger, sem fer með málefni fjölmiðla í framkvædastjórn Evrópusambandsins, einnig gert og sagt lögin brjóta í bága við grundvallargidli ESB. Ef þau yrðu ekki afturkölluð eða þeim breytt megi Pólverjar eiga von á formlegri áminningu sem geti leitt til að Pólverjar missi atkvæðisrétt í leiðtogaráði ESB. Málið verður tekið fyrir á næsta fundi framkvæmdastjórnarinnar á miðvikudaginn.

Ríkisfjölmiðillinn TVP nýtur trausts í Póllandi. Fram kemur í frétt BBC um málið að flokkur forsetans, Lög og réttur, sem vann meirihluta á þingi í október, telji að frétta- og dagskrárgerðarfólk á TVP sé hlutdrægt í garð flokksins í sinni umfjöllun. Talskona forsetans sagði í kvöld að forsetinn hefði staðfest lögin því hann vildi að ríkisfjölmiðillinn væri óhlutdrægur og áreiðanlegur.

Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV